Europol flautar til leiks

Europol nýtir sér fótboltaæðið sem hefur heltekið heimsbyggðina í að ...
Europol nýtir sér fótboltaæðið sem hefur heltekið heimsbyggðina í að lýsa eftir hættulegustu glæpamönnum í Evrópu. Ljósmynd/Europol

Sam­tök lög­reglu­manna í ESB og ná­granna­ríkj­um sem sér­hæfa sig í að hafa uppi á og hand­sama flótta­menn (ENFAST) hafa hoppað á HM-vagninn og stofnað sérstaka „glæpamannadeild“.

„Akkúrat þegar þú hélst að þú myndir sakna fótbolta þegar undanúrslitunum lýkur í kvöld hafa lögregluyfirvöld í Evrópu hleypt af stokkunum sinni eigin keppni: „Mest eftirlýstu menn Evrópu“,“ segir í tilkynningu frá Europol.

Aðeins eitt lið er skráð til leiks í keppninni og er það skipað 25 hættulegustu glæpamönnum Evrópu. Með uppátækinu vonast Europol eftir því að glæpamennirnir verði jafn þekktir og margar af helstu stjörnum heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. „Því fleiri sem sjá andlit þeirra, því meiri líkur eru á að þeir verða handteknir,“ segir í tilkynningu Europol.

Það er því ekki jafn eftirsóknarvert að taka þátt í keppni Europol eins og HM og er ferilskrá keppenda ekki jafn glæsileg og afrekaskrá fótboltastjarnanna. Þátttakendurnir koma frá 23 Evrópulöndum og yfir helmingur þeirra er eftirlýstur fyrir morð og restin fyrir umfangsmikil eiturlyfjasmygl, vopnuð rán, fjársvik eða blöndu af öllu framantöldu.

Þátttakendur í deild Europol munu líklega ekki fá að lyfta ...
Þátttakendur í deild Europol munu líklega ekki fá að lyfta bikar líkt og þessum. AFP

Leikar hefjast klukkan sjö í fyrramálið. Almenningur getur fylgst með á heimasíðu keppninnar þar sem má sjá auðan knattspyrnuvöll til að byrja með. Europol mun síðan deila sérstökum talnarunum á samfélagsmiðlum sínum og með því að slá inn tölurnar verður hægt að sjá glæpamennina sem lýst er eftir á vellinum. Síðasta talnarunann verður gefin út á laugardaginn og þá verður hægt að sjá alla glæpamennina 25 sem skipa lið mest eftirlýstu glæpamanna Evrópu.

Þessi nýja herferð Europol er gerð í þeim tilgangi að ná betur til almennra borgara þar sem reynslan hefur sýnt að ábendingar frá almenningi hafa skilað sér í handtökum. Frá því að vefsíða með eftirlýstum glæpamönnum í Evrópu var sett í loftið með stuðningi Europol fyrir tveimur árum hafa ábendingar frá almenningi leitt til handtöku 17 glæpamanna á listanum. Með því að nýta fótboltaáhuga Evrópubúa á meðan HM stendur yfir vonast Europol til þess að þeirra útgáfa af HM muni skila tilætluðum árangri.

Hér má nálgast frekari upplýsingar um keppnina „Eftirlýstustu glæpamenn Evrópu.“

mbl.is
VolkswagenPolo 2006 til sölu
Vetrar og sumardekk, 4 dyra, ekinn 179 þ.km. Gott viðhald og smurbók. Verð 240 þ...
EIGUM ALLSKONAR STIGA Á LAGER
Einnig sérsmíði, sjáið úrvalið t.d. á: www.sogem-stairs.com/en_home-home.php L...
Kantsteins og múrviðgerðir
Vertíðin hafin hafið samband í símum 551 4000. 6908000 á verktak@verktak.is e...
INTENSIVE ICELANDIC, ENGLISH, NORWEGIAN, DANISH & SWEDISH f. foreigners - ÍSLENSKA f.útl - ENSKA - NORSKA, DANSKA, SÆNSKA
ÍSLENSKA, ENSKA, NORSKA, DANSKA, SÆNSKA I, II, III, IV, V, VI: Starting dates...