Makedónum boðin aðild að NATO

Zoran Zaev og Alexis Tsiparas, forsætisráðherrar Makedóníu og Grikklands, undirrituðu …
Zoran Zaev og Alexis Tsiparas, forsætisráðherrar Makedóníu og Grikklands, undirrituðu samkomulagið 17. júní. AFP

Makedónum hefur verið boðið að hefja viðræður um aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Þetta kemur fram á heimasíðu NATO, en ákvörðunin var tilkynnt í dag í tilefni leiðtogafundar bandalagsríkjanna 29, sem fram fer í Brussel.

Ákvörðunin kemur fáum á óvart en hún kemur í kjölfar samkomulags grískra og makedónskra stjórnvalda sem bindur enda á 27 ára deilu um notkunina á nafninu Makedónía.

Grikkir hafa staðið í vegi fyrir aðild Makedóna að Evrópusambandinu og NATO en með samkomulaginu verður breyting á. Áður hefur verið greint frá því að stefnt sé að því að ríkið hefji aðildarviðræður við ESB á næsta ári.

Stjórnvöld í Grikklandi og Fyrrum Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu – sem flestir láta sér nægja að kalla Makedóníu – hafa um árabil deilt um notkun á nafninu Makedónía og hafa Grikkir sakað hitt ríkið um að gera tilkall til arfleifðar Makedóníu-héraðsins í Grikklandi með því að kalla ríkið sitt Makedónía.

Eftir strembnar samningaviðræður undirrituðu stjórnvöld í ríkjunum tveimur samkomulag í síðasta mánuði þar sem Makedónar fallast á að breyta nafni ríkisins í Lýðveldi Norður-Makedóníu, auk smærri aðgerða eins og að hætta að nefna alþjóðaflugvöllinn og fleiri staði í höfuðið á Alexander mikla. Á móti munu Grikkir styðja aðild ríkisins að Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, og Zoran Zaev funduðu í júní.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, og Zoran Zaev funduðu í júní. Ljósmynd/NATO

Ekki allir sáttir

Samkomulagið nýtur ekki stuðnings allra. Þúsundir þjóðernissinna hafa komið saman á nokkrum mótmælafundum í Aþenu, höfuðborg Grikklands, til að mótmæla því sem þeir kalla uppgjöf í deilunni.

Þá leggjast Rússar harðlega gegn því að NATO þenji sig frekar út á Balkanskaga og hafa varað við að aðild Makedóna að bandalaginu gæti haft „neikvæð áhrif fyrir öryggi og samskipti ríkja á svæðinu“.

Stjórnvöld í Grikklandi vísuðu á dögunum tveimur rússneskum stjórnarerindrekum úr landi og hafa meinað tveimur öðrum aðgang vegna ásakana um að þeir hafi reynt að spilla fyrir samkomulaginu milli ríkjanna enda stendur vesturvæðing Makedóníu og fellur með samkomulaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert