Vilja að mál gegn Weinstein verði felld niður

Harvey Weinstein hefur neitað ásök­un­um um að hafa beitt konur …
Harvey Weinstein hefur neitað ásök­un­um um að hafa beitt konur kynferðislegu ofbeldi og gengur hann laus gegn tryggingu. AFP

Lögmenn bandaríska kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein hafa farið fram á að mál skjólstæðings þeirra fyrir dómstóli í New York verði felld niður. Weinstein er sakaður um að hafa beitt þrjár konur kynferðislegu ofbeldi á árunum 2004, 2006 og 2011.

Lögmennirnir lögðu fram tölvupósta máli sínu til stuðnings sem ein kvennanna sem sakar Weinstein um nauðgun sendi honum eftir að ofbeldið átti sér stað. Telja þeir póstana næga ástæðu til að vísa málinu frá. Í frétt BBC segir að í tölvupóstunum eigi konan að hafa talað hlýlega til Weinstein og þakkað honum fyrir allt sem hann gerði fyrir hana. Þá stendur í póstunum að hana langi til að hitta Weinstein aftur.

Að mati lögmannanna gefa tölvupóstsamskiptin til kynna að samband þeirra hafi verið innilegt og af gagnkvæmum vilja.

Konan sem um ræðir sakar Weinstein um að hafa nauðgað henni á hótelherbergi í mars 2013. Hún er meðal fjölda kvenna í kvik­mynda­brans­an­um sem hafa sakað Wein­stein um kyn­ferðisof­beldi, þar á meðal nauðgan­ir, en ásak­an­irn­ar hrundu af stað #met­oo-her­ferðinni. Sjálf­ur hef­ur hann alltaf neitað þess­um ásök­un­um og gengur hann laus gegn tryggingu.

Saksóknarar í New York hafa ekki tjáð sig um þau gögn sem lögmenn Weinstein hafa lagt fram.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert