Dregur úr styrk Lane

Fellibylurinn Lane herjar nú á Hawaii og hefur öllu skólastarfi verið aflýst og eins eru flest fyrirtæki lokuð í óveðrinu. Heldur hafði dregið úr styrk Lane þegar hann kom að landi og er hann nú þriðja stigs fellibylur. Fjölmargir hafa leitað skjóls í neyðarskýlum vegna vatnselgs víða og aurskriða. 

Þegar Lane kom að landi á eyjunum mældist vindhraðinn 45 metrar á sekúndu auk úrhellis. Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, lýsti í gær yfir neyðarástandi á Hawaii-eyjaklasanum. Samkvæmt upplýsingum  frá embætti forsetans er alríkisstjórnin reiðubúin til að grípa inn og veita stuðning ef þurfa þykir.

Í færslu á Twitter segir bandaríska veðurstofan að þrátt fyrir að dregið hafi úr styrk fellibyljarins sé ástandið hættulegt og mikil flóð valdi áhyggjum.

United Airlines hefur aflýst öllu flugi til og frá Maui í dag, segir á vef BBC.

NBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert