Árásarmaðurinn látinn

Árásarmaðurinn sem skaut nokkra til bana á tölvuleikjamóti í Jacksonville …
Árásarmaðurinn sem skaut nokkra til bana á tölvuleikjamóti í Jacksonville er meðal hinna látnu. AFP

Árásarmaðurinn sem skaut nokkra til bana á veitingastað í Jacksonville í Flórída í dag er látinn. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var árásarmaðurinn einn að verki.

„Einn hefur stöðu grunaðs manns í málinu. Hann lést á vettvangi,“ sagði Mike Williams, lögreglustjóri í Jacksonville, á blaðamannafundi sem lauk fyrir skömmu. Árásarmaðurinn er hvítur karlmaður og unnið er að því að bera kennsl á hann.

Fjöldi manns var sam­an kom­inn til að taka þátt í undan­keppni tölvu­leiks­ins Madd­en NFL 19, en leik­ur­inn er byggður am­er­ísk­um fót­bolta og er fram­leidd­ur af EA Sports.

Tala látinna hefur ekki fengist staðfest, en fjölmiðlar í Jacksonville segjast hafa heimildir fyrir því að fjórir séu látnir, þar á meðal árásarmaðurinn, og að sjö séu særðir.

Los Angeles Times hefur eftir einum þátttakanda í mótinu að árásarmaðurinn hafi verið meðal þátttakenda en hafi verið dottinn úr leik. Hann hafi þá útvegað sér skotvopn, komið aftur inn á staðinn og skotið að minnsta kosti fimm áður en hann skaut sjálfan sig.

Leiknum var varpað á skjá á staðnum og fylgdust nokkrir tugir með. Myndskeiði hefur verið deilt á samfélagsmiðlum þar sem leikurinn er spilaður og heyra má skothvelli úr byssu árásarmannsins. Myndskeiðið má sjá hér að neðan: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert