Sænskir jafnaðarmenn vilja foreldrafrí

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar og leiðtogi Sósíaldemókrata.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar og leiðtogi Sósíaldemókrata. AFP

Sænskir jafnaðarmenn vilja lengja frí barnafólks um eina viku til að vega upp á móti frídögum leik- og grunnskólabarna. Tillagan nefnist fjölskylduvikan (s. familjeveckan) og er meðal kosningaloforða flokksins, sem kynnt voru á dögunum, fyrir þingkosningarnar sem fram fara á sunnudaginn.

Ef af verður mun foreldrum barna á aldrinum 4 til 16 ára standa til boða að taka fimm aukafrídaga á ári. Launagreiðslum í fríinu yrði háttað með svipuðum hætti og fæðingarorlofsgreiðslum. Foreldrar fengju 80% af fullum launum, upp að vissu marki, og kæmu greiðslur úr ríkissjóði.

Stefan Löfven, forsætisráðherra og formaður sósíaldemókrata, segir tillögunni ætlað að létta undir með foreldrum og auðvelda þeim að samtvinna heimilislíf og vinnu. Margir foreldrar eigi erfitt með að brúa það bil sem er á milli sumarfrís grunnskólabarna, sem stendur í um tíu vikur, og eigin sumarfrís, sem eru 25 virkir dagar  fimm vikur. Því fylgi sífellt stress auk þess sem fjöldi foreldra þekki það að þurfa að skilja börnin eftir ein heima á meðan þau eru í vinnu.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Tillagan hefði áhrif á 900.000 sænskar fjölskyldur en fjármálaráðherrann, Magdalena Andersson, segir að kostnaður yrði um 5,4 milljarðar sænskra króna, jafnvirði um 65 milljarða íslenskra króna. Aðrir hafa þó bent á að kostnaður geti verið allt að fimmfalt hærri ef allir foreldrar nýta sér réttindin. Kristilegir demókratar, sem tilheyra hægribandalaginu, hafa lagt til svipaðar hugmyndir sem gera ráð fyrir að foreldrar eigi rétt á fimm dögum frá vinnu á ári hverju, þó ekki á launum.

Elisabeth Svantesson, talsmaður hægriflokksins Moderaterna í efnahagsmálum, hefur sagt tillöguna „sympatíska en kostnaðarsama“ og réttara sé að forgangsraða fjármunum í brýnni málefni, svo sem eflda löggæslu, innspýtingu í heilbrigðiskerfið svo stytta megi biðlista sjúkrahúsa (fáir frasar eru jafnfyrirferðarmiklir í aðdraganda kosninganna og „styttri biðlistar“) og bætt aðgengi ungs fólks að sálfræðiþjónustu.

Borgað fyrir að vinna ekki

Aðrir hafa þó tekið dýpra í árinni. Siri Steijer, hagfræðingur hjá Timbro  hugveitu sænska viðskiptaráðsins, segir tillöguna „ógeðslegt kosningagylliboð“.

„Við stöndum frammi fyrir þeim raunveruleika að erfitt er að fjármagna velferðarkerfið, og þá á maður ekki að koma fram með tillögu um að gera okkar dýra stuðningskerfi foreldra enn örlátara,“ segir hún í pistli á vef Dagens Samhälle. „Það er verið að borga fólki fyrir að vinna ekki á sama tíma og fólk með krabbamein kemst ekki í meðferð í tíma.“

Þá vill Steijer raunar helminga lengd fæðingarorlofs en það er hvergi lengra en í Svíþjóð, 16 mánuðir, þar af þrír mánuðir bundnir hvoru foreldri og hinir tíu til skiptana. Eiga foreldrar rétt á um 80% af launum sínum meðan á orlofinu stendur.

Siri Steijer
Siri Steijer Ljósmynd/Timbro

Samkvæmt tölum sænsku tryggingastofnunarinnar frá í fyrra taka feður um 28% orlofsdaga en mæður 72%, en hlutfall þeirra daga sem feður taka hefur aukist jafnt og þétt síðasta áratuginn. 

Steijer og hugveitan Timbro hafa auk þess lagt til að að barnabætur verði afnumdar en sænskir foreldrar fá greiddar skattfrjálsar 1.250 sænskar krónur á mánuði (um 15.000 íslenskar krónur) með hverju barni, sem ólíkt íslenskum barnabótum skerðast ekki vegna tekna.

mbl.is
Loka