Vilja ekki að Íranar nái fótfestu í Sýrlandi

Mynd frá ríkissjónvarpsstöðinni SANA af því sem sagt er vera …
Mynd frá ríkissjónvarpsstöðinni SANA af því sem sagt er vera eldflaug yfir flugvellinum í Damaskus í gær. AFP

 Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, segist vinna að því að stöðva fjendur ríkis síns í því að komast yfir fullkomin vopn. Þetta sagði ráðherrann klukkustundum eftir að stjórnvöld í Sýrlandi greindu frá því að ísraelskum eldflaugum hefði verið skotið að flugvelli höfuðborgarinnar Damaskus.

Ísraelsk stjórnvöld hafa hvorki játað né neitað fregnum um eldflaugaárásirnar sem sýrlenska ríkissjónvarpsstöðin SANA greindi frá í gær. Árásin var sögð hafa átt sér stað síðdegis í gær. 

„Ísrael vinnur stöðugt að því að koma í veg fyrir að óvinir okkar vopnist með fullkomnum vopnum,“ var haft eftir Netanyahu í tilkynningu frá ráðuneyti hans. 

SANA hafði eftir heimildarmönnum innan sýrlenska hersins að loftvarnarkerfi hefði virkjast er „óvinaflaugum“ hefði verið skotið að flugvellinum.

Mannréttindasamtökin The Syrian Observatory for Human Rights segir að árásinni hafi verið beint að vopnageymslu í nágrenni flugvallarins.

Ísraelar hafa heitið því að koma í veg fyrir að erkióvinirnir Íranar nái hernaðarlegri fótfestu í hinu stríðshrjáða nágrannaríki Sýrlandi. Íranar eru stuðningsmenn Sýrlandsstjórnar í stríðinu.

Nýverið greindu ísraelsk stjórnvöld frá því að þau hefðu gert yfir 200 árásir í Sýrlandi síðustu átján mánuði. Skotmörkin hefðu verið írönsk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert