Trump: ætlar að útrýma „viðvarandi ódauni“

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist ætla að útrýma „viðvarandi ódauni“ úr …
Donald Trump Bandaríkjaforseti segist ætla að útrýma „viðvarandi ódauni“ úr dómsmálaráðuneytinu. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hét því í gær að útrýma „viðvarandi ódauni“ úr dómsmálaráðuneytinu. Orðin lét Trump falla eftir að New York greindi frá því að Rod Rosenstein aðstoðardómsmálaráðherrann hefði rætt um að taka þyrfti upp samræður við Trump, án hans vitundar, og fá ráðherra stjórnarinnar til að beita 25. ákvæði stjórnarskrárinnar til að koma Trump úr embætti.

Trump nefndi Rosenstein ekki á nafn að sögn fréttastofu CNN, né nokkurn annan embættismann. Hann ræddi ekki heldur fréttina sjálfa. Hann hefur hins vegar ítrekað átt í deilum við Rosenstein sem réði til starfa Robert Mueller, sérstakan saksóknara í rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar FBI af meintum afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum 2016. Þá er Trump sagður hafa íhugað að láta Rosenstein taka pokann sinn í apríl sl.

„Mig langar að segja ykkur að við erum með frábært fólk í dómsmálaráðuneytinu,“ sagði Trump við gesti á kosningafundi í Missouri. „Þetta er fólk sem ég hef fulla trú á. Væri gerð skoðanakönnun þá ætti þetta við um 95% þeirra. En við höfum líka nokkra verulega slæma þar. Þið sjáið hvað gerðist hjá FBI. Þeir eru allir farnir, en það loðir enn við ódaunn og við ætlum að losna við hann líka.“

Fréttin „óná­kvæm og staðreynda­lega röng“

Sjáið hvað hefur nú verið afhjúpað í dómsmálaráðuneytinu og hjá FBI,“ bætti Trump við. „Sjáið hvað er að gerast.“

Ro­sen­stein sendi frá sér yf­ir­lýs­ingu í kjöl­far frétt­ar New York Times þar sem hann sagði að hún væri bæði „óná­kvæm og staðreynda­lega röng“. CNN hefur hins vegar eftir heimildamönnum sínum sem þekkja til minnisblaða Andrew McCabe, fyrrverandi aðstoðarforstjóra FBI, þar sem málið er rætt.

„Ég mun ekki tjá mig frek­ar um frétt sem bygg­ir á nafn­laus­um heim­ilda­mönn­um sem eru aug­ljós­lega hlut­dræg­ir gegn ráðuneyt­inu,“ sagði Ro­sen­stein í gær. „Ég get hins veg­ar verið al­veg skýr með þetta: Á grund­velli minna per­sónu­legu kynna af for­set­an­um þá er eng­in grun­völl­ur fyr­ir að virkja 25. grein­ina.“

Hvíta húsið hefur ekki tjáð sig um fréttina um að Rosenstein hafi viljað beita 25. greininni, en hún er talin vekja spurningar um framtíð hans í embætti aðstoðarvarnarmálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert