Stórabeltisbrú lokað vegna leitar

Stórabeltisbrúin.
Stórabeltisbrúin. mbl.is/Jón Pétur

Stórabeltisbrú í Danmörku hefur verið lokað vegna mikillar lögregluaðgerðar. Að sögn lögreglunnar stendur leit yfir að „hættulegri“ manneskju. Lögreglan vildi ekki greina frá því hverjum er leitað að.

Sænska blaðið Aftonbladet segir að fregnir hafi borist af mannráni og leitar lögreglan að Volvo-bifreið sem er skráð í Svíþjóð. 

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni í Kaupmannahöfn að leit standi yfir að bifreið af tegundinni Volvo V90 með bílnúmerið ZBP 546. Talið er að í bifreiðinni séu þrjár manneskjur sem tengist alvarlegum glæp.

Vitni eru hvött til að hafa samband við neyðarlínuna. Fólk er beðið um að reyna ekki að ná sambandi við fólkið í bílnum.

Lögreglumenn vopnaðir vélbyssum eru sagðir hafa stöðvað bíla vestur af Kaupmannahöfn. Þyrlur sveima einnig yfir svæðinu.

„Ég var í dönsku lögreglunni í 41 ár og ég hef aldrei upplifað aðra eins aðgerð,“ sagði Hans Jorgen Bonnichsen, fyrrverandi yfirmaður dönsku leyniþjónustunnar, við vefsíðu BT.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert