Gleymdi barninu sínu í bílnum

Ljósmynd/Wikipedia.org

Tæplega tveggja ára stúlka lést á dögunum í Madrid, höfuðborg Spánar, eftir að faðir hennar hafði gleymt henni í bifreið sinni þegar hann fór til vinnu sinnar. Maðurinn ók eldri börnum sínum í skólann og ætlaði síðan að aka stúlkunni á barnaheimili áður en hann legði bifreið sinni þar skammt frá og tæki lestina áfram í vinnuna.

Hins vegar gleymdi maðurinn að fara með stúlkuna á barnaheimilið og var hún heilan dag í bifreiðinni áður en hún fannst síðdegis eftir að móðir hennar ætlaði að sækja hana á barnaheimilið. Fékk hún þau svör að barnið hefði aldrei komið þangað. Hafði hún þá samband við föðurinn sem áttaði sig þá á mistökunum.

Bifreiðin fann móðirin í kjölfarið og var stúlkan þá án meðvitundar í aftursætinu. Viðbragðsaðilar komu skömmu síðar á vettvang en þrátt fyrir tilraunir til þess að endurlífga barnið í 45 mínútur tókst það ekki og var það úrskurðað látið. Faðirinn var handtekinn af lögreglu í kjölfarið og yfirheyrður en síðan látinn laus.

Dómari mun taka ákvörðun um það hvort faðirinn verður ákærður fyrir manndráp af gáleysi. Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.es að bifreiðin hafi verið með skyggðum rúðum sem komið hafi í veg fyrir að vegfarendur gætu séð barnið inni í henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert