Látin í þrjá daga á heimili sínu

Hinn tvítugi Makaveli Lindén og sú sem talin er hafa …
Hinn tvítugi Makaveli Lindén og sú sem talin er hafa orðið honum að bráð í Belgíu á flótta hans frá Ósló til Frakklands, fatahönnuðurinn Johanna Jostameling. Hún lá örend á heimili sínu í þrjá sólarhringa áður en lík hennar fannst. Ljósmynd/Twitter-síða sænsku lögreglunnar

Makaveli Lindén, tvítugur Svíi sem handtekinn var í Dijon í Frakklandi 23. október eftir hrottalegt dráp í Majorstuen-hverfinu í Ósló rúmri viku áður, er nú aukinheldur grunaður um að hafa margstungið og myrt 58 ára gamla konu í belgíska bænum Mechelen á flótta sínum til Frakklands. Fórnarlambið lá látið í þrjá sólarhringa á heimili sínu áður en það fannst og hefur lögregla í Ósló, Belgíu og Frakklandi staðfest þessar grunsemdir við VG og fleiri norska fjölmiðla.

Lindén er nú væntanlegur til Noregs í krafti framsalssamnings norskra og franskra yfirvalda en norska rannsóknarlögreglan Kripos sendi yfirheyrsluteymi til Dijon í Frakklandi strax eftir handtökuna til að þýfga hinn grunaða um skýringar á málinu. Hann játaði fljótlega við yfirheyrslur að hafa ráðið hinum 24 ára gamla Heikki Bjørk­lund Paltto bana en Paltto fannst látinn í íbúð sinni í Majorstuen í Ósló mánudaginn 15. október eftir að hafa verið stunginn 20 sinnum eins og mbl.is greindi frá.

Sú sem látin fannst í Mechelen hét Johanna Jostameling og var 58 ára gamall sænsk-þýskur fatahönnuður. Dánarorsök hennar var fjöldi stungusára og gátu vinir hennar staðfest að munum hefði verið stolið af heimili hennar en Jostameling var einhleyp og hafði legið látin heima hjá sér í þrjá sólarhringa þegar lík hennar fannst. Nele Poelmans hjá saksóknaraembættinu í Mechelen segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að Lindén hafi ekki formlega fengið stöðu grunaðs manns í málinu hjá belgískum yfirvöldum enda hafi þau ekki enn fengið aðgang að honum til að yfirheyra hann í Frakklandi.

Lindén er væntanlegur til Noregs innan skamms þar sem mál hans er til rannsóknar en hann var um nokkurra daga skeið í október eftirlýstur í 190 löndum eftir að lík Paltto fannst í Majorstuen og myndefni öryggismyndavéla á lestarstöð í Skøyen í Ósló bar böndin að Svíanum unga. Það var svo franska lögreglan sem miðaði út farsíma Lindéns og handtók hann á járnbrautarstöð í bænum Dijon. Hann á sér nokkurn glæpaferil í Svíþjóð og hefur setið þar inni fyrir þjófnað, fíkniefnabrot og fleira. Lindén var látinn laus til reynslu í ágúst þrátt fyrir tíu agabrot í sænsku fangelsi eins og NRK greindi nýlega frá. Upphaflegt nafn hans er Christian Bo Lindén en hann breytti því í Makaveli á meðan hann sat inni í febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert