Smakka „ógeðslegasta“ mat heims

Hugrakkir smakkarar.
Hugrakkir smakkarar. Ljósmynd/Anja Barte Telin

Sýningarstjóri Disgusting Food Museum stefnir að því bæta súrsuðum íslenskum hrútspungum við þá flóru „ógeðslegs“ matar sem fyrir er á safninu.

Safnið opnaði í borginni Malmö í Svíþjóð í síðustu viku og mætti fjöldi gesta á opnunardaginn til að svala forvitninni á þessari óvenjulegu matarsýningu. Þar eru um 80 tegundir af mat á borðum sem eru vafalítið kunnar í heimalandinu en eru víða annars staðar litnar hornauga, svo ekki sé nú meira sagt. Má þar nefna kæstan hákarl frá Íslandi, froskasafa frá Perú, maðkaost frá Sardiníu, hinn illa lyktandi ávöxt durian frá Taílandi, súrsaða sænska síld, nautatyppi frá Kína og naggrís.

Hægt er að lykta að flestum matartegundunum á safninu en aðeins er hægt að smakka nokkrar sérvaldar á dag.  

Viðkvæmum er bent á að myndirnar og lýsingarnar sem fylgja fréttinni geta valdið ónotum og óhug.

Íslenski hákarlinn. Brennivínið er ekki langt undan.
Íslenski hákarlinn. Brennivínið er ekki langt undan. Ljósmynd/Anja Barte Telin

Sneru við út af lyktinni

Á opnunardeginum var lyktin af hákarlinum svo vond að sumir sneru við er þeir stigu inn fyrir dyrnar, að sögn safnstjórans Samuels West. Einhverjir þeirra söfnuðu þó kjarki og ákváðu að láta sig hafa óþefinn eftir að hafa hugsað málið. „Hákarlinn er eitt það versta sem er á safninu, alla vega lyktin,“ segir West, sem ræddi við blaðamann bæði á íslensku og ensku en hann á íslenska móður.

Samuel West sýningarstjóri.
Samuel West sýningarstjóri. Ljósmynd/Anja Barte Telin

Settu upp „pókerfés“

Hann segir það hafa verið athyglisvert að fylgjast með gestum safnsins setja upp „pókerfés“ fyrir framan myndavélarnar, sem voru margar þennan fyrsta dag, enda fjölmiðlar áhugasamir um uppákomuna. Lyktin og bragðið af matnum hafi langt í frá átt að bjóða upp á slíkt. Á þessum fyrsta degi var hægt að smakka kæstan hákarl. Margir slógu til og ákváðu að prófa og segist West hugsanlega ætla að bjóða upp á hann á hverjum degi vegna vinsældanna, enda drógu hann og súrsaða síldin flesta að.

Ljósmynd af sviðum

Spurður segist hann vilja hafa meira af íslenskum mat á safninu, þar á meðal svið, en vegna þess að kindahausakássa frá Íran er hluti af matarsýningunni hafi þeir látið sér nægja að vera með ljósmynd af íslensku sviðunum. Súrsuðu hrútspungarnir koma þó vonandi sterkir inn í staðinn. 

Maðkaostur frá Sardiníu.
Maðkaostur frá Sardiníu. Ljósmynd/Anja Barte Telin

Hljóta að geta borðað skordýr

West starfrækti á síðasta ári safnið Museum of Failure, eða Mistakasafnið þar sem áhersla var lögð á uppgötvanir sem höfðu misheppnast og ekki orðið að neinu. Hugsunin á bak við safnið var að fólk verði að sætta sig við mistök ef það vill að framfarir og nýsköpun verði. Markmiðið með Disgusting Food Museum er að breyta hugarfari almennings gagnvart óhefðbundnum próteingjöfum, aðallega skordýrum. Verið er að benda á að fyrst fólk getur borðað kæstan hárkal, súrsaða sænska síld eða annan „óskapnað“ hljóti það að geta borðað skordýr.

Durian frá Taílandi.
Durian frá Taílandi. Ljósmynd/Anja Barte Telin

„Borðum alltof mikið kjöt“

Hugmyndina að safninu fékk hann fyrir um ári síðan eftir að hafa lesið blaðagreinar í The Guardian um áhrifin sem kjötát hefur á umhverfið. „Við borðum alltof mikið kjöt og það er að eyðileggja plánetuna,“ segir West, sem kveðst þó ekki vera umhverfisverndarsinni eða grænmetisæta. Einnig vill hann með sýningunni varpa ljósi á ólíka menningarheima og hvernig matarvenjur þeirra eru.

Froskasafabar.
Froskasafabar. Ljósmynd/Anja Barte Telin

Vilja ekki að guð dæmi þá

Spurður segist hann hafa smakkað um einn þriðja af matnum sem er til sýnis á safninu, þar á meðal naggrís, fiskikássuna Stinky Stew, slímkenndu sojabaunirnar natto frá Japan og osta, sem munu vera fimm af þeim verst lyktandi í heiminum.

Ýmislegt sé þó ekki hægt að smakka, til dæmis franska söngfuglinn Ortolan, eða Dultittling. „Þessi fugl étur aðeins á nóttunni. Þeir taka hann og setja í búr sem er fullt af mat og fuglinn étur sig nánast til dauða. Svo taka þeir fuglinn og drekkja honum í koníaki og elda hann. Það á að vera himnesk upplifun að borða hann en þegar hann er borðaður setja menn blæju yfir höfuðið svo að guð sjái þá ekki og dæmi þá,“ útskýrir West.

Safnið er opið til 27. janúar á næsta ári frá miðvikudegi til sunnudags. West vonast til að ferðast með þessa óvenjulegu og „ógeðslegu“ matarsýningu til Íslands einn góðan veðurdag en það verður allt saman að koma í ljós.

Haggis frá Skotlandi
Haggis frá Skotlandi Ljósmynd/Anja Barte Telin
Nautatyppi frá Kína.
Nautatyppi frá Kína. Ljósmynd/Anja Barte Telin
Dósir með súrsuðu síldinni.
Dósir með súrsuðu síldinni. Ljósmynd/Anja Barte Telin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert