Hafði ökuréttindi í 49 mínútur

Ljósmynd/Wikipedia.org

Þýskum karlmanni tókst á dögunum að missa ökuleyfið einungis 49 mínútum eftir að hann fékk það afhent. Maðurinn var í ökuferð með nokkrum vinum sínum skömmu eftir að hafa tekið prófið þegar lögreglan stöðvaði hann fyrir hraðakstur.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að maðurinn, sem er 18 ára, hafi verið mældur á 95 kílómetra hraða á klukkustundu í bænum Hemer á vegi þar sem aðeins sé heimilt að aka á 50 km/klst. hraða. „Sumt varir að eilífu, annað í minna en klukkustund,“ segir meðal annars í yfirlýsingu lögreglunnar vegna málsins.

Maðurinn var sviptur ökuréttindum í fjórar vikur og fær ökuleyfið ekki aftur nema eftir að hafa farið í endurþjálfun með tilheyrandi kostnaði. Þá þarf hann að greiða 200 evra sekt, fær tvo punkta og fær síðan ekki varanleg ökuréttindi fyrr en að fjórum árum liðnum í stað tveggja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert