Gjáin eykst í baráttunni gegn hlýnun jarðar

Hópur fólks mótmælir loftslagsbreytingum í Bordeaux í Frakklandi. Útblástur gróðurhúsalofttegunda …
Hópur fólks mótmælir loftslagsbreytingum í Bordeaux í Frakklandi. Útblástur gróðurhúsalofttegunda heldur áfram að aukast þrátt fyrir loforð þjóða um að draga úr losun. AFP

Mannkynið er að dragast aftur úr í baráttunni við loftslagsbreytingar og bilið milli útblásturs gróðurhúsategunda og þeirra markmiða, sem Parísarsamkomulagið kveður á um að þurfi að nást, heldur áfram að aukast.

Þetta kemur fram í ársskýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál og er þar bent á að þó að hitastig jarðar hafi aðeins hækkað um eina gráðu enn sem komið er hafi stigmögnun verið í mannskæðum gróðureldum, hitabylgjum og fellibyljum.

Haldi þróunin áfram með sama hætti mun hitastig jarðar hafa hækkað um fjórar gráður fyrir lok þessarar aldar og segja vísindamenn slíka framtíðarsýn grafa undan tilvist mannkyns.

Eigi að takast að halda hlýnun jarðar innan tveggja gráða verða þær þjóðir sem staðfestu Parísarsamkomulagið 2015 að þrefalda samdrátt sinn varðandi losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 að því er segir í skýrslu umhverfisnefndar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) um hlýnun jarðar. Eigi að takast að halda hlýnun jarðar innan 1,5° verði að draga fimmfalt úr losuninni.

Útblástursbilið breiðara en í fyrra

„Útblástursbilið er mun breiðara en í fyrra,“ hefur AFP eftir Philip Drost, einum höfunda skýrslu UNEP. Ein ástæða aukningarinnar árið 2017 var rakin til magns koltvísýrings, metans og annarra gróðurhúsalofttegunda sem sleppa út í andrúmsloftið. Sú þróun hefur haldið áfram í ár og var þá m.a. aukning á útblæstri koltvísýrings frá orkufyrirtækjum að sögn alþjóðaorkustofnunarinnar, en auk þess var aukning í samþjöppun koltvísýrings í andrúmsloftinu.

Þá benda nýir útreikningar vísindamanna til þess að möguleikar á að draga úr koltvísýringi í andrúmsloftinu með plöntun trjáa eða bindingu koltvísýrings með öðrum hætti séu minni en áður var talið.

Í skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, IPCC, sem birt var í síðasta mánuði var varað við því að  2° hlýnun jarðar, sem áður var talin sú hámarkshækkun sem jörðin þyldi, myndi fylgja hringiða mannskæðra veðurfyrirbrigða.

Reyk leggur frá orkuveri í Sofia í Búlgaríu.
Reyk leggur frá orkuveri í Sofia í Búlgaríu. AFP

Vagninn fer hraðar og hraðar

Sé aukinn útblástur og endurútreikningur á möguleikunum á bindingu koltvísýrings tekin saman hefur bilið aukist um tæp 15%, sé miðað við að hlýnun jarðar sé haldið innan við 2° en tæp 70% miðað við 1,5° markið.

 „Við erum að elta vagninn  loftslagsbreytingar – og við erum að fara hraðar og hraðar og setjum ný heimsmet,“ sagði Andrew Steer, forstjóri World Resources Institute-stofnunarinnar í Washington. „En vagninn eykur hraðann jafnvel enn meira og bilið er að aukast.“

Samkvæmt skýrslunni er það helst á þjóðagrundvelli sem skortir vilja til að ná takmarkinu.

Útblástur gróðurhúsalofttegunda og leiðir til að draga úr honum verða ofarlega á lista umræðuefna á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í Póllandi í næstu viku. Auknar kröfur um minni losun eru þó að sögn AFP ólíklegar til að hafa tilætluð áhrif þegar fæst stærstu efnahagsveldanna eru ekki að ná núverandi markmiðum. Þannig munu Bandaríkin, Ástralía, Kanada, Suður-Kórea, Mexíkó og Tyrkland fara fjarri því að ná núverandi markmiðum sínum.

Evrópusambandið, Japan, Brasilía og Suður-Afríka standa sig betur en munu þó heldur ekki ná settu marki. Það munu hins vegar stærstu mengunarvaldarnir, Kína og Rússland, gera en ástæða þessa er að sögn AFP eingöngu sú að markmið þeirra voru mjög svo hófsöm til að byrja með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert