Ástandið versnar þar sem neyðin er mest

Nadia Nahari heldur á fimm ára gömlum syni sínum, Abdelrahman …
Nadia Nahari heldur á fimm ára gömlum syni sínum, Abdelrahman Manhash, sem þjáist af bráðavannæringu og vegur aðeins fimm kíló. Milljónir Jemena eru að svelta. AFP

Hvergi í heiminum ríkir jafn mikil neyð og í Jemen og vara Sameinuðu þjóðirnar við því að ástandið eigi enn eftir að versna á næsta ári. Telur stofnunin að þá muni fjórar milljónir Jemena til viðbótar þurfa á matvælaaðstoð að halda. 

„Það land þar sem mest vandamál verða árið 2019 er Jemen,“ segir Mark Lowcock, forstjóri mannúðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, OCHA. Hann segir að í fyrra hafi Sameinuðu þjóðirnar veitt þremur milljónum íbúa Jemen mataraðstoð í hverjum mánuði. Í ár var sá fjöldi kominn upp í átta milljónir á mánuði og á næsta ári er óttast að um tólf milljónir Jemena þurfi slíka neyðaraðstoð. 

Börn hafa orðið fórnarlömb hungurs og átaka í Jemen.
Börn hafa orðið fórnarlömb hungurs og átaka í Jemen. AFP

Ástandið í Jemen hríðversnaði eftir að hernaðarbandalag, undir forystu Sádi-Araba, hóf afskipti af því í mars árið 2015. Bandalagið styður stjórn landsins gegn uppreisn húta sem aftur eru taldir njóta stuðnings Írans.

Þá hefur ástandið versnað til muna síðustu mánuði þar sem hagkerfi landsins er hrunið og ofbeldi í hafnarborginni Hodeida, sem er undir yfirráðum uppreisnarmanna, snarjókst. Hersveitir húta og stjórnarherinn hafa tekist á um borgina síðustu vikurnar. Þá eru allar nauðsynjavörur af skornum skammti og erfitt að koma hjálpargögnum til landsins. 

24 milljónir Jemena, um 75% þjóðarinnar, munu þurfa mannúðaraðstoð af einhverju tagi á næsta ári.

Mótmælendur í Líbanon halda á lofti mynd af barni sem …
Mótmælendur í Líbanon halda á lofti mynd af barni sem lést í átökum í stríðinu í Jemen. AFP

Þá þarf ríkisstjórnin fjármuni til að geta greitt opinberum starfsmönnum, s.s. heilbrigðisstarfsfólki og kennurum, laun til að hægt sé að koma í veg fyrir enn frekari þjáningar. Sameinuðu þjóðirnar segjast eiga von á því að Sádar haldi áfram fjárstuðningi við stjórnvöld í Jemen.

Lowcock bendir á að hægt sé að breyta ástandinu og bæta ef friðarviðræður, sem Sameinuðu þjóðirnar munu leiða, skila árangri. Þær eiga að hefjast í Svíþjóð í þessum mánuði. Hann segir að ef viðræðurnar skili árangri sé mögulegt að um mitt næsta ár verði það versta yfirstaðið hvað þjáningar Jemena varði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert