Lýstu yfir stuðningi við Ríki íslams

Lögreglubifreið sést aka með líkamsleifar kvennanna en þær verða fluttar …
Lögreglubifreið sést aka með líkamsleifar kvennanna en þær verða fluttar til heimalanda sinna. AFP

Fjórir karlmenn sem grunaðir eru um aðild að morðunum á skandi­nav­ísku vin­kon­un­um Louisu Vestera­ger Jes­per­sen og Mar­en Ue­land lýstu yfir stuðningi við Ríki íslams áður en morðin voru framin, samkvæmt saksóknara í Marokkó.

Áður hafði verið greint frá því að málið væri rannsakað sem mögulegt hryðjuverk. 

Kon­urn­ar voru sam­an á bak­poka­ferðalagi í Mar­okkó og ætluðu að vera þar um jól­in. Ue­land, sem er norsk og 28 ára göm­ul, og Jes­per­sen, sem er dönsk og 24 ára göm­ul, voru sam­an í námi við Sørøst-Nor­ge-há­skól­ann í Bø í Þela­mörk.

Saksóknari í Marokkó staðfesti í dag að mennirnir fjórir, sem allir hafa verið handteknir, hafi lýst yfir stuðningi við Ríki íslams og að það sé sjáanlegt í myndskeiði. 

Þrír hinna grunuðu.
Þrír hinna grunuðu. AFP

Einnig kom fram í máli saksóknara að í myndskeiðinu hóti hinir grunuðu því að halda ofbeldisverkum áfram. Samkvæmt frétt Reuters var myndskeiðið tekið upp viku áður en konurnar voru myrtar og á öðrum stað.

„Myndskeiðið og niðurstaða fyrstu rannsóknar marokkóskra yfirvalda benda til þess að morðin séu tengd hryðjuverkahópnum Ríki íslams. Þetta er dýrslegt morð á tveimur saklausum ungum konum,“ kom fram í yfirlýsingu frá dönsku leyniþjónustunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert