Höfðu ekki efni á að fara til Sýrlands

Maren Ueland frá Bryne í Rogaland í Noregi og hin …
Maren Ueland frá Bryne í Rogaland í Noregi og hin danska Louisa Vesterager Jespersen, rúmlega tvítugar háskólastúdínur í Noregi mættu hrottalegum örlögum í Atlas-fjöllunum í Marokkó. Ljósmyndir/Úr einkasafni/Samsett mynd norska ríkisútvarpið NRK

Mennirnir sem grunaðir eru um morð á tveimur ungum norrænum konum í Marokkó í fyrra hafa gefið þá skýringu á morðunum að þeir hafi ekki haft efni á að fara til Sýrlands og ganga til liðs við vígasamtökin Ríki íslams. Réttarhöld yfir meintum morðingjum hinnar dönsku Louisa Vesterager Jespersen og norsku Maren Ueland hófust í síðasta mánuði.

Danska ríkisútvarpið DR, greinir frá þessu og segir skjöl, sem norska dagblaðið VG hefur undir höndum og sem lögð hafa verið fram í réttarhöldum yfir fólkinu, gefa innsýn í tilefni morðanna á þeim Jespersen og Ueland.

Samsett mynd af þeim Rachid Afatti (t.v.), Ouziad Younes (f.m) …
Samsett mynd af þeim Rachid Afatti (t.v.), Ouziad Younes (f.m) og Ejjoud Abdessamad (t.h.) sem eru grunaðir um morðin á þeim Louisa Vesterager Jespersen og Maren Ueland. AFP

Segir DR mennina fjóra, sem taldir eru helstu gerendur í málinu, hafa ákveðið að myrða þær Jespersen og Ueland af því að þeir áttu ekki kost á að komast til Sýrlands. Metnaður þeirra hafi staðið til þess að ganga til liðs við Ríki íslams, en bæði peningaskortur og erfiðleikar við að ferðast hafi hindrað þá í að fara þangað. Þeir ákváðu því að myrða erlenda ferðamenn í nafni vígasamtakanna  heima í Marokkó.

Gefur sá gerandi, sem talinn er hafa skipulagt aðgerðirnar og sem áður hefur hlotið dóm fyrir hryðjuverkastarfsemi, að vegabréfið hafi verið tekið af honum eftir að hann var látinn laus úr fangelsi 2016.

Einn meintra geranda leiddur fyrir rétt í Rabat í Marokkó.
Einn meintra geranda leiddur fyrir rétt í Rabat í Marokkó. AFP

VG segir tilræðismennina þá hafa rætt bæði möguleikann á sprengjuárás og að gera árás á lögreglu.

Áður en þeir héldu til fjalla tóku þeir upp myndband þar sem þeir lýsa yfir stuðningi við Ríki íslams. Er upp í Atlas-fjöllin var komið eru þeir sagðir hafa gengið lengi um og hitt á fjölda mögulegra fórnarlamba áður en þeir rákust á þær Jesbersen og Ueland þar sem þær voru að tjalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert