Vara Frakka við að styðja Kúrda

Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands.
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands. AFP

Yfirvöld í Tyrklandi vöruðu í dag Frakka við því að verja varnarsveitir Kúrda í Sýrlandi sem hingað til hafa verið studdar af Bandaríkjamönnum. Sögðu þau að hernaðarmáttur Tyrkja væri nægur til að geta borið sigur úr býtum í baráttunni við samtökin Ríki íslams.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í síðustu viku að hann ætlaði að draga til baka herlið Bandaríkjanna frá Sýrlandi, en um er að ræða tvö þúsund hermenn. Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Jim Mattis, sagði af sér í kjölfarið, en ákvörðunin er sögð hafa komið flestum á óvart, meðal annars helstu samstarfsþjóðum Bandaríkjanna í Sýrlandi eins og Frakklandi. Tyrknesk stjórnvöld brugðust hins vegar jákvætt við fréttunum.

Frakkar hafa síðan þá tekið fram að þeir ætli sér ekki að kalla herinn sinn heim frá Sýrlandi og sagði Nathalie Loiseau, Evr­ópu­málaráðherra frönsku stjórn­ar­inn­ar, að baráttunni gegn hryðjuverkum væri ólokið. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði á sunnudaginn að hann harmaði ákvörðun Trump.

Varnarsveitir Kúrda hafa verið í aðalhlutverki innan Sýrlensku lýðræðissveitanna. Bandaríkjamenn …
Varnarsveitir Kúrda hafa verið í aðalhlutverki innan Sýrlensku lýðræðissveitanna. Bandaríkjamenn hafa hingað til stutt Kúrda, en eru nú á heimleið. Á sama tíma vilja Tyrkir berjast gegn Kúrdum. AFP

Utanríkisráðherra Tyrklands, Mevlut Cavusoglu, sagði við fréttamenn að ef það væri gott ef Frakkar ætluðu að vera áfram í Sýrlandi og aðstoða við uppbyggingu landsins. Ef þeir ætluðu sér hins vegar að verja hersveitir Kúrda væri það ekki til að bæta ástandið.

Sýrlensku lýðræðissveitirnar (SDF) ), sem náðu með aðstoð Banda­ríkja­hers m.a. borg­inni Raqqa úr hönd­um Rík­is íslams, hafa verið studdar meðal annars af Bandaríkjunum. Á meðal þeirra sem standa inn­an SDF eru varn­ar­sveit­ir Kúrda (YPG) sem Tyrk­ir álíta sem hryðju­verka­sam­tök en hafa leikið lyk­il­hlut­verk, við hlið Banda­ríkja­manna, í bar­átt­unni gegn Ríki íslams. Tyrkir telja varnarsveitirnar vera systursamtök Kúrdíska verkamannaflokksins sem hefur átt í vopnuðum átökum innan landamæra Tyrklands, en Kúrdar eru fjölmennir í austurhluta landsins. Eru samtökin PKK bönnuð í Tyrklandi.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur sagt að Tyrkir muni á komandi mánuðum sækja fram gegn Ríki íslams og YPG.

Donald Trump hefur tilkynnt um að herlið Bandaríkjanna muni halda …
Donald Trump hefur tilkynnt um að herlið Bandaríkjanna muni halda heim frá Sýrlandi. AFP
mbl.is