Tveir teknir af lífi í Japan

Ljósmynd/Wikipedia.org

Tveir karlmenn voru teknir af lífi í Japan í morgun. Aftökur eru þar með orðnar fimmtán á þessu ári en Japan er eitt af fáum iðnríkjum hvar dauðarefsingu er enn beitt. Aðeins einu sinni hafa jafnmargir verð teknir af lífi í landinu á einu ári frá því farið var að greina opinberlega frá aftökum árið 1998. Það var árið 2008.

Karlmennirnir tveir, Keizo Kawamura sem var sextugur og Hiroya Suemori sem var 67 ára, voru sakfelldir fyrir að hafa myrt yfirmann fyrirtækis og starfsmann þess árið 1988. Þeir rændu hárri fjárhæð og sökktu líkunum í steinsteypu og grófu þau síðan í fjallendi.

Dauðadómur var endanlega kveðinn upp yfir þeim árið 2004 en aftökur í Japan eru framkvæmdar með hengingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert