Mega aðeins selja umkomulaus dýr

1,5 milljónir gæludýra eru svæfð á ári hverju í Bandaríkjunum …
1,5 milljónir gæludýra eru svæfð á ári hverju í Bandaríkjunum vegna þess að ekki finnst nýr eigandi fyrir þau. mbl.is/Golli

Ný lög sem taka gildi í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum þann 1. janúar heimila gæludýraverslunum aðeins að selja umkomulaus dýr, dýr sem hefur verið bjargað úr slæmum aðstæðum eða eru án eigenda. BBC greinir frá

Er þetta gert til þess að bregðast við þeim mikla fjölda dýra sem eru í dýraathvörfum. Iðnaður þar sem gæludýr eru ræktuð í hagnaðarskyni hefur færst í aukana á síðustu árum sem leitt hefur til þess að fjöldi dýra er án eigenda.

Skref gegn ofræktun og offramleiðslu

Dýraverndunarsamtök hafa mært lagasetninguna og sagt hana skref gegn ofræktun og offramleiðslu dýra í hagnaðarskyni. Þau segja slíka framleiðslu geta leitt til ómannúðlegrar meðferðar á dýrum auk langvarandi tilfinningalegra og líkamlegra heilsufarsvandamála hjá dýrum. 

Eftir að lögin hafa tekið gildi verða gæludýraverslanir í ríkinu nú að halda skrá yfir það hvar þau sóttu dýrin sem þau hyggjast selja, og verða skrárnar kannaðar reglulega af yfirvöldum. Lögin hafa hins vegar ekki áhrif á þá sem selja gæludýr sjálfstætt, svo sem minni hundaræktendur sem ekki gera út á skipulagða starfsemi.

Samkvæmt Amerísku dýraverndunarsamtökunum, ASPCA, eru um 6,5 milljónir gæludýra færð í dýraathvörf á hverju ári, og af þeim eru 1,5 milljónir dýra svæfð vegna þess að ekki finnast nýir eigendur.  

mbl.is