„Skó-skandall“ skekur forsætisráðherra

Skór forsætisráðherrans þóttu of glansandi hvítir til að vera sannir.
Skór forsætisráðherrans þóttu of glansandi hvítir til að vera sannir. Ljósmynd/Twitter

Mynd af Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, þar sem hann er að hafa það huggulegt í lautarferð með fjölskyldunni hefur vakið athygli fyrir skínandi hvítan skóbúnað. Myndin birtist sem forsíðumynd á heimasíðu forsætisráðherrans.

Þóttu skórnir ekki alveg passa við heildarútlit forsætisráðherrans og þegar nánar er að gáð sést að skórnir hafa verið settir inn á myndina með myndvinnsluforritinu Photoshop.

Netverjar voru ekki lengi að benda á hvítu skóna og juku enn á vandræðalegheitin með því að benda á að svo virðist sem tveir vinstrifótarskór hafi verið „fótósjoppaðir“ inn á myndina. Nú hefur forsætisráðherrann svarað fyrir sig á Twitter þar sem hann slær á létta strengi og skellir skuldinni á starfsmenn í ráðuneytinu.

Á upphaflegu myndinni er Morrison í eldri og snjáðari strigaskóm með bláum röndum, sem eru uppáhaldsstrigaskórnir hans og hafa sést áður þegar forsætisráðherrann þarf ekki að vera formlega klæddur.

Morrison birti mynd af upprunalegu skónum þar sem hann segir að hann hafi alls ekki beðið um að þeir yrðu teknir af myndinni. „En ef þið verðið að nota Photoshop, vinsamlegast einblínið þá á hárið (eða skortinn á því), ekki fæturna!“ segir í færslu forsætisráðherrans á Twitter. 

Morrison er ekki fyrsti forsætisráðherra heimsins sem vekur athygli fyrir skóbúnað sinn, en margir muna eflaust eftir þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra Íslands, mætti til fundar við Barack Obama Bandaríkjaforseta í ósamstæðum skóm. 

Upprunalega myndin af Morrison og fjölskyldu er nú aðgengileg á heimasíðu forsætisráðherrans en hvítu skórnir eru orðnir landsfrægir í Ástralíu og hafa netverjar leikið sér með þá á meðan aðrir hafa búið til sína eigin útgáfu af myndinni eins og sjá má:

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert