Myrti belgískur flugmaður Hammarskjöld?

Dag Hammarskjöld, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna 1953-1961.
Dag Hammarskjöld, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna 1953-1961. Ljósmynd/Wikipedia.org

Fyrrverandi flugmaður í breska flughernum er nú talinn tengjast láti Dags Hamm­arskjölds, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóra Sam­einuðu þjóðanna. Frá þessu greinir Guardian, sem segir flugmanninn Jan van Risseghem hafa áður verið nefndan sem mögulegan tilræðismann Hammarskjöld, en til þessa hafi hann verið nafndur „belgíski flugmaðurinn“.

Observer segir van Risseghem hins vegar hafa átt náin tengsl við Bretland. Móðir hans hafi verið bresk, sem og eiginkona hans og þá hafi hann hlotið þjálfun sína hjá breska flughernum og hlotið viðurkenningu fyrir sinn þátt í heimsstyrjöldinni síðari.

Hammarskjöld gegndi starfi fram­kvæmda­stjóra SÞ frá 1953-1961, þegar hann lést í flug­slysi í Sam­b­íu ásamt 15 öðrum. Stuttu eft­ir slysið kom upp orðróm­ur um að vél­inni hefði verið grandað.

Kvikmyndagerðarmenn sem unnið hafa að heimildamynd um lát Hammarskjöld, Cold Case Hammarskjöld, ræddu við vin van Risseghem sem fullyrðir að hann hafi játað fyrir sér að hann hafi skotið vélina niður. Þá fengu kvikmyndagerðarmennirnir einnig vitnisburð annars flugmanns, sem grefur undan fjarvistarsönnun van Risseghem fyrir kvöldið sem vélin hrapaði.

Dag Hammarskjöld við komuna til Sambíu.
Dag Hammarskjöld við komuna til Sambíu. AFP

Flaug fyrir uppreisnarmenn í Kongó

Van Risseghem átti belgískan föður og breska móður. Hann flúði til Bretlands í upphafi heimsstyrjaldarinnar síðari og tók þar þátt í andspyrnuhreyfingunni. Hann hlaut þjálfun hjá breska flughernum og var í sendisveitum sem flugu yfir svæðum sem nasistar höfðu náð á sitt vald.

Van Risseghem kynntist á þessum tíma breskri konu sem hann kvæntist. Að stríði loknu fór parið til Belgíu, en 1961 var van Risseghem komin til Kongó og flaug þar fyrir uppreisnarmenn sem höfðu lýst yfir sjálfstæði Katanga héraðs.

Guardian segir að í heimildamyndinni sé fullyrt að van Risseghem hafi verið skipað að skjóta flugvél Hammarskjöld niður, en Hammarskjöld var þar í leynilegum erindagjörðum að reyna að koma á friði í Kongó.

Myndin verður frumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni eftir hálfan mánuð.

Ekki var ljóst er vélin hrapaði hvort um hermdarverk hefði verið að ræða, en grunur um slíkt hefur þó lengi verið uppi og tilkynntu Sameinuðu þjóðirnar í síðasta mánuði að rannsaka eigi dauða Hammarskjöld á ný.

Guardian segir van Risseghem hafa strax í upphafi hafa verið talinn líklegan tilræðismaður og á sendiherra Bandaríkjanna í Kongó að hafa nefnt hann á nafn sem mögulegan árásarmann. Sendiherrann á að hafa sent trúnaðarskeyti þessa efnis strax daginn sem vélin hrapaði, en trúnaði var fyrst aflétt af skeytinu nú nýlega.

Vissi ekki að Hammarskjöld var um borð

Áratugum saman virtist van Risseghem, sem aldrei var yfirheyrður af yfirvöldum, hafa sönnun þess að hann hafi ekki verið á flugi á svæðinu er vélin hrapaði. Málaliði sem flaug fyrir uppreisnarmennina á sama tíma og Van Risseghem segir ýmsar augljósar falsanir hins vegar að finna í flugbókum hans. Sjálfur telur hann Van Risseghem þó ekki hafa skotið niður vélina.

Pierre Coppens, vinur van Risseghems, segir hins vegar í samtali við kvikmyndagerðamenn að hann hafi játað fyrir sér að bera ábyrgð á dauða Hammarskjöld um áratug eftir atvikið.

Coppens segir van Risseghem hafa lýst því hvernig hann sigraðist á ýmsum tækniörðugleikum til að granda vélinni. Hammerskjöld hafi þó ekki vitað hver var þar um borð. „Hann vissi þetta ekki,“ sagði Coppens. „Hann sagði: „Ég fór í sendiförina, það er allt og sumt.“.“

Van Risseghem lést árið 2007 en eftirlifandi ættingjar hans, þar með talið ekkjan hafna því að hann hafi átt aðild að dauða Hammarskjöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert