Verður Ivanka næsti forseti Alþjóðabankans

Ivanka Trump, dóttir Donald Trump Bandaríkjaforseta, á ríkisstjórnarfundi í Hvíta …
Ivanka Trump, dóttir Donald Trump Bandaríkjaforseta, á ríkisstjórnarfundi í Hvíta húsinu. Hún er sögð hafa verið nefnd á nafn sem mögulegur forseti Alþjóðabankans. AFP

Ivanka Trump, dóttir Donald Trumps Bandaríkjaforseta, er meðal þeirra sem nefndir hafa verið á nafn í Washington sem mögulegir arftakar núverandi forseta Alþjóðabankans.

Financial Times greinir frá því að Trump sé meðal þeirra sem nefnd hefur verið, en Jim Yong Kim, forseti Alþjóðabankans, tilkynnti óvænt í upphafi árs að hann muni hætta störfum í næsta mánuði, rúmum þremur árum áður en samningur hans átti að renna út.

Notendur samskiptamiðilsins Twitter virðast hins vegar þeirrar skoðunar að hugmyndin um skipan forsetadótturinnar í embættið sé fáránleg. „Af öllum þeim Bandaríkjamönnum sem gætu verið forseti Alþjóðabankans er Ivanka Trump sú hæfasta. Hún missti tískuvöruframleiðslu sína og svo vill til að hún er dóttir forsetans, ég skil,“ sagði þingmaðurinn Ted Lieu hæðnislega á Twitter.

Milljarðamæringurinn og demókratinn Tom Steyer sem fjármagnar um þessar mundir herferð til að kæra Donald Trump fyrir embættisglöp og hugleiddi um tíma að bjóða sig fram til forseta segir tillöguna „þá fáránlegustu“ sem hann hafi nokkrum sinnum heyrt. „Frændsemi er bara önnur tegund spillingar þannig að þetta kemur mér ekki á óvart, en fáránleiki þessa fær mann til að missa öndina,“ hefur Guardian eftir Steyer.

Trump getur tilnefnt frambjóðendur í stöðuna og hefur reglulega íhugað dóttur sína og eiginmann hennar Jared Kushner sem mögulega kandídata í hin ýmsu störf sem þau að öðrum kostum teldust ekki hæf til að gegna.

Er forsetinn m.a. sagður hafa íhugað að skipa dóttur sína sem fastafulltrúa Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert