Ekkert Brexit fremur en enginn samningur

Öll spjót standa á May þessa dagana.
Öll spjót standa á May þessa dagana. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, leitar nú allra leiða til þess að fá þingmenn til þess að styðja Brexit-samninginn. Forsætisráðherrann hyggst ávarpa þingið í dag þar sem hún mun vara við því að verði samningurinn ekki samþykktur sé líklegra að ekkert verði af Brexit, fremur en að Bretland yfirgefi Evrópusambandið án samnings.

Þetta kemur fram í umfjöllun BBC, sem segir May munu bæta því við að traust á stjórnmálum muni bíða mikinn skaða verði ósk landsmanna um útgöngu ekki virt.

Verkamannaflokkurinn hefur þegar gefið það út að vantrauststillaga á hendur May verði lögð fram fáist samningurinn ekki samþykktur í atkvæðagreiðslu þingsins sem fram fer á morgun. Jeremy Corbyn, leiðtogi flokksins, segir sína flokksmenn ætla að kjósa gegn samningnum og í kjölfarið taka skref til þess að ná fram þingkosningum í landinu, verði samningnum hafnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert