Stjórnarsamstarf samþykkt með naumindum

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. AFP

Fyrsta meirihlutastjórn hægri flokka í Noregi síðan árið 1985 var mynduð í kvöld þegar ljóst var að Kristilegi þjóðarflokkurinn hefði samþykkt að taka þátt í stjórnarsamstarfi með Hægriflokknum, Framfaraflokknum og Frjálslynda flokknum. Engu munaði að Kristilegi þjóðarflokkurinn samþykkti ekki samstarfið.

19 í Kristilega þjóðarflokknum greiddu atkvæði með stjórnarsamstarfinu en 17 voru því mótfallnir. Forystufólk flokkanna hittist á hóteli í grennd við Gardermoen-flugvöll utan við Ósló klukkan 14:00 að staðartíma og sjö tímum síðar var stjórnarsamstarfið samþykkt.

„Þetta er sögulegur dagur,“ sagði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, þar sem hún ávarpaði blaðamenn í kvöld. Hún sagði að viðræður flokkanna hefðu verið góðar en einnig erfiðar.

Knut Arild Hareide.
Knut Arild Hareide. Ljósmynd/Kristilegi þjóðarflokkurinn

Knut Arild Hareide, formaður Kristilega þjóðarflokksins, er andvígur stjórnarsamstarfinu og tók engan þátt í stjórnarmyndunarviðræðunum. 

169 þingmenn sitja á Stórþinginu en nýi meirihlutinn er með 88 þingmenn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert