Tólf tíma í röð fyrir hrísgrjónapoka

Mikil mótmæli hafa verið í Venesúela undanfarið vegna efnahags- og …
Mikil mótmæli hafa verið í Venesúela undanfarið vegna efnahags- og stjórnmálaástandsins. Margar þjóðir hafa viðurkennt forseta þingsins sem réttmætan forseta landsins. AFP

„Meginvandamálið var öryggisástandið og há glæpatíðni. Á þessum tíma var dóttir mín eins árs. Allt frá aldamótum hafði verið gríðarleg aukning í tíðni mannrána og ég óttaðist að lenda í því að einhverjum úr fjölskyldunni yrði rænt, að ganga í gegnum það var hrikaleg tilhugsun. Þess vegna fórum við,“ segir Maikol Genovese í samtali við mbl.is, en hann yfirgaf Venesúela ásamt dóttur og eiginkonu árið 2010.

Maikol Genovese.
Maikol Genovese. Ljósmynd/Aðsend

Hann komst ásamt fjölskyldu sinni fyrst til Mið-Austurlanda þar sem hann starfaði um tíma og settist síðar að í Bandaríkjunum.

Spurður hvernig staða öryggismála sé nú segir hann það hafi dregið úr tíðni mannrána, en aðallega vegna þess að það hefur enginn neina peninga. „Lausnargjöldin eru núna einn þriðji af því sem þau voru fyrir tíu árum.“

Maikol tekur þó fram að gríðarleg örvænting fólks hafi leitt til þess að margir hafi þurft að fremja glæpi til þess að hafa í sig og á.

„Ástandið er svo slæmt að ættingjar mínir búa eiginlega við útgöngubann alla daga þar sem fólk þorir ekki út, það er of hættulegt. Fólk sem var í millistétt er núna lágtekjufólk og býr við fátækt. Aðstæður eru svo hrikalegar, ég hef ferðast um Suður- og Mið-Ameríku mikið síðustu átján mánuði og þar hitti ég alls staðar fólk frá Venesúela, fólk úr öllum stéttum.“

Tólf tíma í röð

Móðir Maikols og frænka búa enn þá í Karakas, höfuðborg landsins, og tengdafjölskyldan utan höfuðborgarinnar. Bróðir hans og fjölskylda hafa hins vegar komist til Bógóta í Kólumbíu.

„Mamma mín stendur í röð í tólf tíma til þess að fá einn poka af hrísgrjónum og það er erfitt að hugsa til þess að fólk þurfi að lifa svona,“ segir Maikol sem segist reglulega senda varning til fjölskyldu og tengdafjölskyldu sinnar í Venesúela.

 „Við sendum öll föt sem við erum hætt að nota, hluti sem við myndum undir venjulegum kringumstæðum gefa Hjálpræðishernum. Við vitum að þetta eru hlutir sem ættingjar okkar geta notað eða fólk sem þeir þekkja. […] Við reynum líka að senda matvæli eins og túnfisk, dósamat, hrísgrjón. Við sendum líka hunda- og kattamat, hann er orðinn svo dýr að fólk hendir gæludýrunum sínum út vegna þess að það hefur ekki efni á því að gefa þeim að borða. Þetta er alveg ótrúlegt,“ útskýrir hann og harmar það að varningi sem þau senda hefur oft verið stolið.

Tugir þúsunda hafa yfirgefið Venesúela vegna stjórnmála- og efnahagsástandsins.
Tugir þúsunda hafa yfirgefið Venesúela vegna stjórnmála- og efnahagsástandsins. AFP

Ekki efni á að kveikja ljós

„Það hefur alltaf verið vandamál að senda hluti heim þar sem þeir hafa ekki alltaf skilað sér,“ segir Maikol. Það hafi hins vegar bætt stöðuna að hafa kynnst manni sem rekur flutningafyrirtæki og hefur verið hægt að tryggja að allur varningur skili sér til móður hans.

Hins vegar hefur ekki gengið greiðlega að koma hlutum til tengdafjölskyldunnar. „Þegar við höfum reynt að senda eitthvað til fjölskyldu konu minnar, þau búa nokkur hundruð kílómetra utan höfuðborgarinnar, þá hefur kössunum verið stolið. Í fyrra lentum við í því að bíll flutningsaðila var stöðvaður og vopnaðir menn stálu öllu. Þannig að núna sendum við allt til mömmu minnar og fjölskylda konunnar þarf að keyra þangað til þess að sækja þann varning sem við sendum.“

Maikol segist enn eiga húsið sem hann yfirgaf í Karakas. „Þetta var millistéttarhverfi og nú sér maður á kvöldin bara ljós í stökum húsum, vegna þess að fólk hefur annaðhvort yfirgefið landið eða hefur ekki efni á að greiða fyrir rafmagnið. Öll þessi hús eru nú í svakalega lélegu ástandi, innan fárra ára verður hverfið allt útlítandi eins og gamla Havana.“

Styður Guaido

„Ég held að stjórnarandstaðan sé að taka rétt skref þar sem hún er að framfylgja ákvæðum stjórnarskrárinnar. En það er ekki nóg að hafa lögin sín megin, það þarf líka stuðning hersins,“ segir Maikol sem útskýrir að ástæða þess að stjórnendur hersins sem jafnvel vilja styðja þingið og forseta þess, hafa takmarkað aðgerðafrelsi sé vegna þess að leyniþjónustumenn Kúbu starfa innan raða hersins með velvild stjórnvalda.

Leiðtogi stjórnarandstöðunar Juan Guaido.
Leiðtogi stjórnarandstöðunar Juan Guaido. AFP

„Margir samlandar mínir segja þessa stjórnendur hersins vera gungur og svikara fyrir að aðhafast ekkert, en staðreyndin er sú að þeir eru undir stöðugu eftirliti.“

Hann segir stjórnvöld í ákveðnum vanda þar sem margir þjóðvarðarliðar hafa gerst liðhlauparar og hafa Nicolás Maduro, forseti Venesúela, og ríkisstjórn hans þurft að reiða sig á vopnaða stuðningsmenn sína til þess að leysa upp mótmæli.

„Þeir hafa ekki nægilegan fjölda innan öryggissveita til þess að hafa stjórn á mótmælendum, þannig að þeir senda þessa hrotta, vopnaða óbreytta borgara til þess að skjóta þá. En margir þessara aðila hafa yfirgefið þessar sveitir vegna þess að þeir eru líka að þjást vegna ástandsins. Meira að segja hafa komið upp aðstæður þar sem komið hefur til átaka milli þessara stuðningsmanna stjórnvalda og lögreglunnar,“ staðhæfir hann og vísar til átaka 23. janúar síðastliðinn.

Snýst um rétt og rangt

Spurður hvað honum finnist um það að sumir íbúar Vesturlanda telji núverandi ástand vera á grundvelli óeðlilegrar aðkomu Bandaríkjanna, svarar hann: „Ég reyni að taka þetta inn á mig, því ég skil að það er söguleg ástæða að baki afstöðu þeirra en þetta fólk þekkir ekki staðreyndir málsins.“

„Það er í raun skammarlegt ef fólk hugsar þannig að ef þetta sé frá hægri þá hlýtur þetta að vera slæmt því ég er sjálfur til vinstri. Þetta snýst ekki um hægri og vinstri, þetta snýst um rétt og rangt. Oft standa mál bara þannig að önnur hliðin hefur rangt fyrir sér,“ segir Maikol.

Rangar upplýsingar eru mikið vandamál að hans mati og segir hann stærstu falsfréttina vera þá að tala um Juan Guaido sem sjáfskipaðan forseta. „Hann skipaði sig ekki sjálfur, hann starfar á grundvelli stjórnarskrárinnar í þeim tilgangi að finna leiðir til þess að koma á tímabundinni stjórn þar til hægt sé að halda kosningar.“

Ekki nóg að losna við Maduro

Maikol segist vongóður um framhaldið. „Ég held að eitthvað stórt sé að fara að gerast á þessu ári, fólk er orðið svo örvæntingafullt. Ég held samt að það muni taka einhverja þrjá til sex mánuði, þetta verður ekki á næstu dögum.“

„Þetta snýst ekki bara um að losa sig við Maduro. Þegar Chavez dó fengum við eitthvað sem var miklu verra. Ef einhverjar breytingar eiga að geta átt sér stað verður ný ríkisstjórn að leita til þeirra stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar sem eru reiðubúnir til þess að finna leiðir til þess að ná sáttum og sameinast um framtíðarsýn. Margir eru ósammála þessu og vilja hefna sín á öllum sem tengjast stjórnvöldum, en það getur hæglega boðið upp á frekari átök,“ útskýrir hann.

Vegferð til sátta milli fylkinga getur hins vegar aðeins átt sér stað ef búið er að koma á nýrri ríkisstjórn, skipa lögmætan hæstarétt og heiðarlega kjörstjórn, að mati Maikols.

Forseti Venesúela, Nicolas Maduro, virðist ekki ætla að láta af …
Forseti Venesúela, Nicolas Maduro, virðist ekki ætla að láta af embætti á næstunni. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert