40 drepnir og 850 handteknir í Venesúela

Mótmælt í Caracas, höfuðborg Venesúela, í síðustu viku.
Mótmælt í Caracas, höfuðborg Venesúela, í síðustu viku. AFP

40 manns hið minnsta hafa farist í átökum mótmælenda og öryggissveita Nicolasar Maduro forseta Venesúela undanfarna daga. Þar af hafa 26 manns verið skotnir til bana af öryggissveitum, að sögn Rupert Colville, talsmanns mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Segir Colville fimm til viðbótar hafa látið lífið í tengslum við húsleitir yfirvalda og 11 í tengslum við rán.

Dagana 21.-26. janúar voru svo 850 manns til viðbótar hnepptir í varðhald, en í þeim hópi eru að sögn Colville 77 börn allt niður í 12 ára gömul.

Flestir þeirra sem teknir hafa verið voru handteknir 23. janúar, er 696 manns voru hnepptir í varðhald í tengslum við mótmælin, en þann dag lýsti Juan Guaidó sig settan forseta landsins. Segir Reuters-fréttaveitan að ekki hafi fleiri verið fangelsaðir á einum degi í landinu sl. 20 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert