Sýnir mikilvægi loftrýmisgæslunnar

Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland stendur nú yfir en flugsveit ítalska …
Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland stendur nú yfir en flugsveit ítalska flughersins kom nýverið hingað til lands. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

„Þetta flug rússneskra sprengjuflugvéla inn í loftrýmiseftirlitssvæðið er enn eitt dæmið um mikilvægi loftrýmiseftirlits og loftrýmisgæslu hér á landi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is um flug rússneskra sprengjuvéla inn í loftrýmiseftirlitssvæði NATÓ við Ísland.

„Þessi flug eru ótilkynnt, þar sem slökkt er á ratsjárvara vélanna en þær sjást engu að síður með ratsjám Atlantshafsbandalagsins sem starfræktar eru hér á landi og öll viðbrögð ítalska flughersins sem er hér að sinna loftrýmisgæslu voru í fyllsta samræmi við vinnureglur Atlantshafsbandalagsins,“ segir ráðherrann.

Tvær Tupolev Tu-142 sprengjuflugvélar rússneska lofthersins uppgötvuðust innan loftrýmiseftirlitssvæðis NATÓ við Íslandsstrendur í morgun.

Færst í aukana

Hann segir jafnframt að ítölsku þoturnar hafi verið sendar á loft til móts við rússnesku vélarnar, þær auðkenndar og upplýsingum miðlað til flugmálayfirvalda, ásamt bandalagsríkjum.

Ekki hefur borgaralegu flugi stafað nein hætta af flugi rússneskra véla, að sögn Guðlaugs sem bendir á að „allur er varinn góður og þess vegna er mikilvægt að viðhalda þessari loftrýmisgæslu“.

Þá hefur tilfellum farið fjölgandi á undanförnum árum þar sem rússneskar flugvélar fljúga inn á loftrýmiseftirlitssvæði NATÓ og rússneskir kafbátar sigli inn á eftirlitssvæði bandalagsins.

Hann segir að ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um að auka viðbúnað hér á landi vegna þessa, „en það hefur verið mjög mikil aukning frá árinu 2014. Þá voru ákveðin kaflaskil.“

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir flug rússneska flughersins inn á …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir flug rússneska flughersins inn á eftirlitssvæði NATÓ sýna mikilvægi loftrýmisgæslunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert