Skutu eldflaug á Tel Aviv

Húsið er mjög illa farið eftir eldsvoðann og eldflaugaárásina.
Húsið er mjög illa farið eftir eldsvoðann og eldflaugaárásina. AFP

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, hefur ákveðið að stytta heimsókn sína í Bandaríkjunum í kjölfar þess að eldflaug sem var skotið frá Gaza á Tel Aviv særði fimm manneskjur.

Í myndskeiði sem skrifstofa forsætisráðherra hefur sent frá sér segir Netanyahu að hann muni eiga fund með forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, innan fárra klukkustunda en snúa síðan aftur til Ísraels þar sem hann muni fylgjast grannt með gangi mála.

Eldflaugin hæfði hús í úthverfi norður af Tel Aviv og kviknaði í húsinu. Fimm Ísraelar í húsinu særðust en enginn alvarlega. Samkvæmt upplýsingum frá Ísraelsher var eldflauginni skotið frá Gazaströndinni og húsið sem hún hæfði er í Mishmeret-hverfinu. Það er í rúmlega 80 km fjarlægð frá Gaza en mjög fátítt er að eldflaugar Palestínumanna nái svo langt. Fastlega er gert ráð fyrir því að Ísraelsher svari fyrir sig fljótlega. 

Margir stjórnmálaskýrendur telja að Netanyahu muni reyna að koma í veg fyrir enn eitt stríðið á Gaza en það yrði annars það fjórða síðan árið 2008. Aftur á móti má búast við því að hann verði beittur miklum þrýstingi af hálfu hersins og herskárra aðila innan stjórnkerfisins. 

mbl.is