Sakar Joe Biden um áreitni

„Ég þráði ekkert heitar en að komast í burtu frá …
„Ég þráði ekkert heitar en að komast í burtu frá Biden.“ AFP

Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna í forsetatíð Baracks Obama, hefur verið sakaður um ósæmilega hegðun í garð samflokkskonu sinnar í Demókrataflokknum.

Lucy Florence, fyrrverandi þingmaður flokksins og þáverandi kandídat til vararíkisstjóra Nevada-ríkis, segir að Biden hafi áreitt hana áður en hún steig á svið á baráttufundi fyrir kosningar 2014. Segir hún Biden hafa lagt hendur á axlir hennar aftan frá, hallað sér að henni og þefað af hárinu á henni.

„Ég dauðskammaðist mín,“ segir Florence. „Hann hélt svo áfram og kyssti mig rembingskossi á hnakkann. Heilinn á mér gat ekki meðtekið þetta. Ég skammaðist mín. Ég var miður mín. Ég þráði ekkert heitar en að komast í burtu frá Biden.“

Ekki þykir ljóst hvort ásökunin muni hafa áhrif á ákvörðun Biden um að bjóða sig fram í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar 2020. Biden mælist ávallt efstur í skoðanakönnunum þrátt fyrir að hann hafi ekki tilkynnt framboð sitt opinerlega.

Lucy Florence og Joe Biden í aðdraganda kosninga 2014.
Lucy Florence og Joe Biden í aðdraganda kosninga 2014. AFP

Talsmaður Biden segir að hvorki hann né Biden sjálfur muni eftir atvikinu né hafi haft vitneskju um að Florence hafi upplifað óþægindi í kosningaherferðinni. Segir hann jafnframt að Biden telji Florence hafa fullan rétt til þess að deila reynslu sinni og að það sé merki um breytingar í samfélaginu að hún hafi tækifæri til þess.

Samkvæmt fréttastofu AFP eru sögur af ósæmilegri hegðun Biden gagnvart konum ekki nýjar af nálinni, og hefur hann meðal annars verið sagður hafa snert eiginkonur, mæður og dætur annarra stjórnmálamanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert