Líkir flóttafólki við rottur

AFP

Ljóð sem birt var í dagblaði austurríska Frelsisflokksins, FPÖ, hefur vakið mikla reiði og hefur kanslari Austurríkis sagt það vera rasískt, viðbjóðslegt og ómannlegt. Í ljóðinu Die Stadtratte (Borgarrottur) er flóttafólki líkt við rottur. Höfundur þess er stjórnmálamaður. 

Aðstoðarborgarstjóri Braunau am Inn, Christian Schilcher, sem er félagi í FPÖ, samdi ljóðið en þar er mönnum líkt við nagdýr og flóttafólki sagt að aðlagast eða koma sér í burtu með hraði.

Kanslari Austurríkis, Sebastian Kurz, hefur farið fram á að samstarfsflokkur hans í ríkisstjórn landsins, FPÖ, taki afstöðu gegn ljóðinu en það var birt í bæjarblaði Braunau am Inn, fæðingarstaðar leiðtoga nasista, Adolf Hitler.

Wikipedia

Schilcher segir að hann hafi ekki ætlað sér að móðga neinn með ljóðinu og biðst afsökunar á því að hafa hunsað söguna þar sem mönnum er líkt við rottur. Væntanlega er hann þar að vísa til áróðursmyndar nasista Der ewige Jude en það er ekki útskýrt í frétt BBC um málið.

Aðstoðarkanslari Austurríkis og formaður FPÖ, Heinz-Christian Strache, skrifaði aftur á móti á Facebook að viðbrögðin sýni svart á hvítu að andstæðingar flokksins óttist hvað gerist í kosningum til Evrópuþingsins í maí.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert