Þingmenn vilja draga úr forsetavaldi

Volodimír Selenskí vann stórsigur í forsetakosningunum á sunnudag.
Volodimír Selenskí vann stórsigur í forsetakosningunum á sunnudag. AFP

Áður en Volodimír Selenskí var kosinn forseti Úkraínu hóf stjórnarandstaðan á þinginu að undirbúa aðgerðir til að draga úr valdi hans. Andrí Sadoví, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins (Samopomich), næststærsta stjórnarandstöðuflokksins á úkraínska þinginu, tilkynnti tveimur dögum fyrir kosningarnar um helgina að hann sæktist eftir stuðningi við frumvarp sem hefði það að markmiði að veikja völd forseta landsins.

Þetta telja stjórnmálaskýrendur m.a. til marks um þá óvild sem bíður hins 41 árs gamla Selenskís sem hlaut meirihluta atkvæða í forsetakosningunum og skákaði þar með sitjandi forseta, Petro Porosjenkó. Selenskí hefur enga reynslu af stjórnmálum og á enga hliðholla fulltrúa á þinginu.

Talið er að Selenskí sverji embættiseið í næsta mánuði. Hann verður að reyna að ná stuðningi á þinginu sem fyrst að öðrum kosti mun það reynast honum ómögulegt að koma stefnumálum sínum í framkvæmd.

Margir þingmenn telja að forsetinn hafi of mikil völd, sé jafnvel ofar lögum sjálfur, eins og einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir í grein Reuters-fréttastofunnar um málið. Núverandi löggjöf gerir ráð fyrir því að forsetinn velji yfirmann öryggissveita og hers landsins, ríkissaksóknara, seðlabankastjóra og utanríkis- og varnarmálaráðherra, svo dæmi séu tekin. Hins vegar þarf þingið að samþykkja tilnefningar hans til þessara starfa. Selenskí hefur ekki viljað gefa upp hvaða flokkum á þinginu hann ásælist að vinna með.

Eitt kosningaloforða hans, sem farið hefur illa í þingheim, er að friðhelgi forseta og þingmanna gegn saksóknum verði afnumin. Þingmenn sem Reuters ræðir við segja ólíklegt að Selenskí fái stuðning við þetta mál sitt á yfirstandandi þingi.

Forsetanum fyrrverandi Petró Porosjenkó og eiginkonu hans Marínu fagnað af …
Forsetanum fyrrverandi Petró Porosjenkó og eiginkonu hans Marínu fagnað af stuðningsmönnum eftir að úrslit kosninganna voru ljós. AFP

Selenskí þarf einnig að koma lagabreytingum í gegn til að ríkið njóti áframhaldandi stuðnings Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Eitt þeirra mála snýst um gegnsæi í fjármálum kjörinna fulltrúa. Heimildarmenn Reuters segja ólíklegt að slík mál fái meirihluta atkvæða á þinginu á næstu mánuðum sem gæti þýtt frestun á fjárstuðningi gjaldeyrissjóðsins.

Porosjenkó forseti skipaði Volodimír Grojsman forsætisráðherra. Hann mun gegna því embætti að minnsta kosti þar til í október er kosið verður til þings. Ef Selenskí tekst að afla sér stuðnings meirihluta þingsins er talið líklegt að hann myndi nýja ríkisstjórn eftir kosningarnar í haust og þá án Grojsmans.

Því er ljóst að mikil vinna er fyrir höndum hjá Selenskí og teymi hans. Og sú vegferð verður þyrnum stráð því þegar er ljóst að margir þingmenn ætla sér að veikja forsetaembættið.

Hann nýtur lýðhylli en alls ekki stuðnings þingsins eins og …
Hann nýtur lýðhylli en alls ekki stuðnings þingsins eins og staðan er í dag. AFP

Svo er það spurning um stuðning annarra ríkja. Í frétt The Moscow Times er haft eftir talsmanni rússnesku ríkisstjórnarinnar að Vladimír Pútín forseti muni ekki óska Selenskí opinberlega til hamingju með sigurinn í kosningunum. Sagði talsmaðurinn í gær að „of snemmt“ væri að senda hamingjuóskir og að rússnesk stjórnvöld ætluðu að dæma hinn nýja forseta af verkum hans.

Bandarísk stjórnvöld óskuðu Selenskí til hamingju og ítrekuðu að þau styddu sjálfstæði Úkraínu og myndu halda áfram að standa með stjórnvöldum þar í landi við að koma á frekari umbótum. Bandaríkjastjórn hefur stutt Úkraínu frá árinu 2014 eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga og uppreisn hófst í austurhluta landsins með stuðningi Rússa. Um 13 þúsund hafa fallið í þeim átökum.

Volodimír Selenskí kyssir eiginkonu sína Ólenu eftir að fyrstu tölur …
Volodimír Selenskí kyssir eiginkonu sína Ólenu eftir að fyrstu tölur voru birtar í kosningunum um helgina. AFP

Selenskí á rætur í skemmtanabransanum. Hann er þekktur gamanleikari í heimalandinu og leikur m.a. forseta í vinsælum sjónvarpsþáttum sem framleiddir eru af Netflix. Hann boðaði breytingar í landinu í kosningabaráttu sinni en er þó talinn styðja þá stefnu sem fyrirrennari hans tók er hann hallaði sér upp að hlið vesturríkjanna. 

Eftir að sigurinn var ljós á sunnudag sagði Selenskí að „allt væri mögulegt“ fyrir fyrrverandi ríki Sovétríkjanna en sagðist einnig vilja bæta sambandið við stjórnvöld í Rússlandi. Þau eru því ærin verkefnin sem hinn nýkjörni forseti stendur frammi fyrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert