Náðu samkomulagi um vopnahlé á Gaza

Húsarústir í Gaza-borg eftir árásir helgarinnar, sem eru þær alvarlegustu …
Húsarústir í Gaza-borg eftir árásir helgarinnar, sem eru þær alvarlegustu og mannskæðustu í áraraðir. AFP

Vopnahlé náðist í nótt milli Ísraela og Palestínumanna eftir mannskæðar árásir helgarinnar. Höfðu Egyptar milligöngu um samkomulagið að því er AFP-fréttaveitan hefur eftir ónafngreindum liðsmönnum Hamas-samtakanna og staðfesti egypskur embættismaður þátttöku ríkisins gegn nafnleynd.

Talskona Ísraelshers neitaði að tjá sig um samkomulagið, en að sögn fréttaveitunnar virðist engum eldflaugum hafa verið skotið frá því vopnahléið átti að taka gildi klukkan hálffimm í morgun.

Vopnahléið kemur í kjölfar alvarlegustu og mannskæðustu  átaka milli ríkjanna í áraraðir. Hundruðum flugskeyta var skotið á loft og sagði palestínski her­inn í gær her­menn hafi skotið um 600 eld­flaug­um á ísra­elskt yf­ir­ráðasvæði um helg­ina, en Ísra­els­menn sögðust hafa skotið á 260 skot­mörk á Gaza-strönd­inni og hótuðu frek­ari árás­um.

Árásirnar um helgina kostuðu 27 manns hið minnsta lífið. Segir AFP 23 Palestínumenn hið minnsta hafa farist, þar af níu uppreisnarmenn. Fjórir Ísraelar fórust einnig og þrír þeirra almennir borgarar.

AFP segir átökin um helgina m.a. mega rekja til þrýstings Hamas-liða á Ísrael, til að fá stjórnvöld til að draga úr hömlum sem þau hafa lagt á Gaza-búa í samræmi við fyrra vopnahléssamkomulag sem komið var á fyrir tilstilli egypskra stjórnvalda og Sameinuðu þjóðanna.

mbl.is