21. ráðherrann segir af sér vegna Brexit

Leadsom er 36. ráðherrann sem segir af sér embætti í …
Leadsom er 36. ráðherrann sem segir af sér embætti í ríkisstjórn Theresu May og 21. sem segir af sér vegna Brexit. AFP

Andrea Leadsom, ráðherra og leiðtogi þingflokks Íhaldsflokksins, hefur sagt af sér embætti. Segist hún ekki lengur hafa trú á áætlunum ríkisstjórnarinnar um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Fram kemur í færslu Leadsom á Twitter að ákvörðunin hafi verið henni þungbær.

Leadsom er 36. ráðherrann sem segir af sér embætti í ríkisstjórn Theresu May og 21. sem segir af sér vegna Brexit.

Leadsom sagði á Twitter-síðunni að ákvörðunin væri henni þungbær. Í bréfi sem May skrifar Leadsom segir hún að það sé leitt að missa jafn ástríðufulla, öfluga og einlæga stjórnmálakonu og Leadsom.

Leadsom bauð sig fram til formennsku í Íhaldsflokknum, fyrir tíð May, en dró framboð sitt til baka og greiddi þannig götu May á leið hennar í embætti formanns og síðar forsætisráðherra.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir nokkrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar að dagar May sem forsætisráðherra séu taldir. May hét því í mars að hún myndi hætta sem leiðtogi Íhalds­flokks­ins eft­ir að Bret­land væri ekki leng­ur í Evr­ópu­sam­band­inu. Í síðustu viku hafnaði hún kröfu frá þing­mönn­um flokks­ins um að hún til­greindi ná­kvæm­lega hvenær hún myndi hætta sem leiðtogi.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert