94 milljarðar af illa fengnu fé

AFP

Lögreglan í Evrópu hefur upprætt starfsemi afar hættulegs glæpahrings en starfsemi hans náði til tuga Evrópulanda en höfuðpaurinn er tæplega fimmtugur Lithái. Alls voru 22 handteknir í aðgerðum sem nefnast „Icebreaker“ (Ísbrjótur) sem er stærsta aðgerð Europol gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Í tilkynningu frá Europol í morgun kemur fram að glæpahópurinn hafi verið upprættur í síðustu viku en aðgerðin Ísbrjótur var skipulögð af Europol, lögreglunni í Litháen, Bretlandi, Póllandi, Eistlandi og spænsku lögreglunni.

Um er að ræða umfangsmikið smygl á fíkniefnum og sígarettum auk launmorða og peningaþvættis, segir í tilkynningunni. Alls tóku 450 lögreglumenn, tollverðir og sérsveitir þátt í aðgerðunum 15. og 16. maí í Póllandi, Litháen, Bretlandi og Spáni. Höfuðpaurinn var handtekinn á Spáni. Leitað var á 40 stöðum og hald lagt á 8 milljónir evra í reiðufé, demanta, gullstangir, skartgripi, lúxusbifreiðar sem og tóbak og fíkniefni.

Talið er að þessir glæpamenn hafi haft um 680 milljónir evra, 94 milljarða króna, upp úr krafsinu á tímabilinu 2017-2019. Fíkniefnum og sígarettum var smyglað til Bretlands og þaðan var illa fengnu fé sem fékkst fyrir söluna smyglað til Póllands. Þar var féð þvegið í gegnum gjaldeyrisskiptastöðvar (currency exchange offices) og féð notað til þess að fjárfesta í fasteignum á Spáni og öðrum löndum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert