Tíu látnir á Everest á einni viku

Þessi ótrúlega mynd sem fjallgöngumaðurinn Nirmal Purja tók á fimmtudag …
Þessi ótrúlega mynd sem fjallgöngumaðurinn Nirmal Purja tók á fimmtudag sýnir umferðina sem var þann daginn upp á topp fjallsins. Slík mannþröng á þessu svæði útheimtir aukna bið og það getur reynst banvænt AFP

Tíu manns hafa látist á Everest-fjalli undanfarna viku, samkvæmt fregnum frá ferðaskrifstofum og nepölskum yfirvöldum, en í frétt AFP segir að tveir menn, Breti og Íri, hafi bæst í hóp þeirra sem látist hafa á fjallinu, Írinn í gær og Bretinn í dag.

„Breskur fjallgöngumaður komst á toppinn í morgun, en hné niður og lést einungis 150 metrum neðar,“ sagði Murari Sharma frá fjallaferðafyrirtækinu Everest Parivar Expedition í samtali við AFP.

Annar ferðaskipuleggjandi staðfesti svo við AFP að Íri hefði látist á Tíbet-hlið þessa hæsta fjalls heims í gær, en nokkur örtröð hefur verið við topp fjallsins undanfarna daga vegna óhagstæðra veðurskilyrða sem hafa leitt til þess að mikill fjöldi manna leggja á tindinn á sama degi, þegar ástæður verða ákjósanlegar.

Áður höfðu fjórir göngumenn frá Indlandi og einn frá Bandaríkjunum, Austurríki og Nepal látist á fjallinu í vikunni. Þá er gert ráð fyrir að annar Íri sé látinn, en hans er saknað eftir að hann rann og féll nærri tindinum.

Þrír Íslendingar komust á topp fjallsins á fimmtudag, þeir Bjarni Ármannsson, Lýður Guðmundsson og Leifur Örn Svavarsson og hafa nú alls níu Íslendingar stigið þar niður fæti.

Tíu hafa látist á Everest-fjalli á einni viku.
Tíu hafa látist á Everest-fjalli á einni viku. AFP
mbl.is