14 farast í bílsprengju

Húsarústir í borginni Raqqa. 10 fórust í bílsprengju í borginni …
Húsarústir í borginni Raqqa. 10 fórust í bílsprengju í borginni í gær. Mynd úr safni. AFP

14 manns hið minnsta létust er bílsprengja sprakk í sýrlensku borginni Azaz, sem uppreisnarmenn með stuðningi tyrkneska hersins hafa á valdi sínu.

Fjögur börn eru í hópi þeirra sem fórust, en sprengjan sprakk í nágrenni mosku í borginni samkvæmt upplýsingum frá sýrlensku mannréttindavaktinni Syrian Observatory for Human Rights. 

Rúmlega 20 manns til viðbótar særðust í sprengingunni, en talið er að um sjálfsvígsárás hafi verið að ræða.

„Margir voru á leið brott eftir kvöldbænastund þegar sprengingin átti sér stað,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Abdul Rahman, einum yfirmanna mannréttindavaktarinnar.

Ekki liggur hins vegar enn fyrir hverjir standa að baki árásinni.

AFP hefur eftir Abu Youssef, íbúa í borginni, að sprengingin hafi orðið í nágrenni markaðar í miðborginni.

„Skemmdirnar eru miklar. Að minnsta kosti sex verslanir brunnu og framhliðar tuga verslana skemmdust,“ sagði Youssef.

Ekki er nema sólarhringur frá því tíu manns fórust og 20 slösuðust í svipaðri sprengingu í borginni Raqqa í norðausturhluta landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert