Neymar sakaður um nauðgun

Neymar á æfingu með brasilíska landsliðinu á Granja Comary leikvangnum …
Neymar á æfingu með brasilíska landsliðinu á Granja Comary leikvangnum í Teresopolis. AFP

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar hefur verið sakaður um að hafa nauðgað konu á hóteli í París en Neymar er leikmaður Parísarliðsins,  Paris St-Germain (PSG). Neymar segir að ekkert sé hæft í frásögn konunnar.

Í frétt BBC kemur fram að konan hafi leitað til lögreglunnar í São Paulo og kært nauðgun en aðstoðarfólk Neymars segir að ekki sé fótur fyrir ásökunum. Neymar æfir þessa dagana með landsliði Brasilíu í heimalandinu fyrir Ameríkukeppnina í knattspyrnu, Copa América.

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar kynntist konan Neymar í gegnum Instagram og stakk hann upp á að þau myndu hittast í París. Hann keypti fyrir hana flugmiða frá Brasilíu til Frakklands og gistingu á Sofitel hótelinu við Sigurbogann.

Þegar Neymar kom á hótelið til konunnar 15. maí var hann áberandi drukkinn að sögn konunnar. Eftir spjall og faðmlög varð Neymar árásargjarn og þvingaði hana til kynmaka með ofbeldi gegn vilja konunnar, að því er segir í lögregluskýrslunni. Konan sneri aftur til Brasilíu tveimur dögum síðar án þess að tilkynna ofbeldið til frönsku lögreglunnar vegna þess að hún var í tilfinningalegu áfalli og hrædd um að tilkynna nauðgun til lögreglu í ókunnugu landi. 

Í yfirlýsingu frá Neymar, sem var gefin út í kjölfar þess að skýrslan var gerð opinber, kemur fram að ásakanirnar séu lygi. Faðir Neymars, Neymar dos Santos, segir í viðtali við brasilísku sjónvarpsstöðina, Band TV, í gær að það sé engum vafa undirorpið að um gildru sé að ræða. 

Hann segir að ef þurfa þykir þá muni fjölskyldan birta samskipti Neymars og stúlkunnar á WhatsApps og nauðsynlegt sé að lygi sem þessari sé svarað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert