Netanyahu neitað um frest á yfirheyrslu

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. AFP

Ríkissaksóknari í Ísrael hefur hafnað beiðni Benjamin Netanyahu forsætisráðherra þess efnis að yfirheyrslum í spillingarmáli gegn honum verði frestað.

Yfirheyrslurnar eiga að fara fram 2. og 3. október, tveimur vikum eftir þingkosningar í landinu. Ísra­elska þingið samþykkti í lok maí að halda nýj­ar kosn­ing­ar í sept­em­ber. Gengið var til at­kvæðagreiðslunn­ar eft­ir að Net­anya­hu mistókst að mynda stjórn, jafn­vel þótt að Likud-flokk­ur hans og sam­herj­ar hans í rík­is­stjórn hafi náð meiri­hluta í þing­kosn­ing­un­um í land­inu í apríl.

Ísra­elska lög­regl­an und­ir­býr lög­sókn gegn Net­anya­hu í tveim­ur mál­um fyr­ir mút­ur og trúnaðarbresti. Í ákvörðun ríkissaksóknara kemur fram að engar málsástæður hafi komið fram sem réttlæti beiðni forsætisráðherrans um að yfirheyrslunum verði frestað.

Netanyahu er á öðru máli og segir að nýja þingkosningar skapi sérstakar kringumstæður sem beri að taka tillit til.

Fyrsti samkynhneigði ráðherrann skipaður degi fyrir gleðigöngu

Í gær skipaði Netanyahu Amir Ohana dómsmálaráðherra og er hann fyrsti samkynhneigði ráðherrann í Ísrael. Gleðiganga fór einmitt fram í Jerúsalem í dag og hefur skipun Ohana verið tengd við að hann sé líklegri en margir stjórnarliðar til að styðja við bakið á Netanyahu og sjá til þess að hann njóti friðhelgi í embætti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert