Myrtu konu og hirtu bætur hennar

Breskir lögreglumenn að störfum. Mynd úr safni.
Breskir lögreglumenn að störfum. Mynd úr safni. AFP

Par sem sinnti umönnun ungrar konu hefur nú verið sakfellt fyrir að myrða hana er hún var 19 ára, halda áfram að krefjast bóta fyrir hana, en leyna málinu áratugum saman.

BBC greinir frá og segir þau Edward Cairney, 77 ára, og Avril Jones, 59 ára, hafa verið sakfelld fyrir að myrða Margret Fleming í desember 1999 eða í janúar árið eftir. Lík hennar hefur hins vegar aldrei fundist.

Það var þó ekki fyrr en í október 2016 sem grunsemdir yfirvalda vöknuðu og var það vegna bótakrafna sem Jones lagði fram fyrir hönd Fleming. Í kjölfarið hófst umfangsmikil lögregluleit að Fleming, án þess að að hún fyndist.

Fleming átti við námsörðugleika að stríða og flutti inn til parsins í kjölfar dauða föður síns árið 1995. Cairney fullyrti hins vegar fyrir dómstól í Glasgow að Fleming væri enn á lífi og hefði farið til London. Þá sagði hann hana hafa flúið út um bakdyrnar á heimili þeirra þegar lögregla kom í fyrstu húsleit sína.

Sögð hafa stungið af með flökkufólki

Kviðdómur taldi þau Cairney og Jones hins vegar vera sek um morð, auk þess sem Jones var fundin sek um að hafa fengið greidd 182.000 pund í bætur frá félagsmálayfirvöldum með því að halda því fram að Fleming væri enn á lífi.

Richard, bróðir Jones, er sá sem síðast er vitað til að hafi séð Fleming á lífi og var það 17. desember 1999. Hún tók ekki þátt í jólamáltíð fjölskyldunnar viku síðar og 5. janúar árið eftir sagði Jones móður sinni Margaret að Fleming hefði stungið af með flökkufólki. Þrátt fyrir þetta fengu þau Cairney og Jones greiddar bætur frá félagsmálayfirvöldum vegna Fleming í meira en áratug án þess að greiðslurnar væru dregnar í efa. 

Ekkert hefur hins vegar sést til hennar síðan þá og hefur lögreglu ekki tekist að komast að hvernig hún lést eða hvað varð um líkið. BBC segir þau Cairney og Jones hafa reynt að dylja spor sín með því að ferðast upp til London og póstsetja þar bréf sem þau fullyrtu að Fleming hefði sent þeim. Þá voru tilbúnar dagbókar- og dagatalsfærslur líka notaðar til að gefa í skyn að Fleming hefði farið að heiman af fúsum og frjálsum vilja.

Rannsakandi sem átti að skoða bótagreiðslurnar reyndi að hitta á Fleming í júní 2012, en fékk þau skilaboð frá Jones að Fleming vildi ekki hitta sig. Sagði rannsakandinn félagsráðgjafa hafa átt að heimækja þetta „verulega óreiðukennda“ heimili til að fylgjast með velferð Fleming, en það hefði enginn gert.

Lögreglu var svo loks tilkynnt um málið fjórum árum síðar eftir að Fleming hafði ekki mætt á skrifstofu félagsmálayfirvalda vegna kröfu um bætur, sem Jones hafði fyllt út. Með kröfu sinni skrifaði Jones að Fleming þyrfti stöðugrar aðstoðar við, hún skaðaði sjálfa sig og hefði eitt sinn verið gripin við að borða úr hundadallinum.

Félagsráðgjafi hringdi þá í Jones og bauð fram aðstoð sína og fékk þær fréttir að Fleming hefði ekki sætt læknisskoðun þrátt fyrir að hafa átt að hafa kroppað gat í hausinn á sér.

Í kjölfarið hóf skoska lögreglan leit að Fleming og hvorki fannst tangur né tetur af henni, þrátt fyrir ítarlega leit m.a. á heimilinu þar sem tvö herbergi reyndust full af alls kynns rusli, og landareigninni þar í kring.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert