Fylgdarlið hertogahjónanna keyrði á konu

Vilhjálmur Bretaprins og Katrín hertogaynja eru sögð hafa áhyggjur af …
Vilhjálmur Bretaprins og Katrín hertogaynja eru sögð hafa áhyggjur af líðan konunnar. AFP

Kona á níræðisaldri liggur á sjúkrahúsi eftir að hafa lent í umferðarslysi við fylgdarsveit Vilhjálms Bretaprins og Katrínar hertogaynju. Hjónin voru á leiðinni með lögreglufylgd frá London til Windsor þegar slysið átt sér stað á um hádegið á mánudaginn. BBC greinir frá. 

Ekki hefur verið gefið upp um atvik slyssins að öðru leyti en að merkt lögreglubifhjól tengist því. Unnið er að rannsókn á tildrögum þess.   

Í tilkynningu frá Kensington-höll segir að hjónin séu „sorgmædd og áhyggjufull yfir atvikinu“. Þau hafa jafnframt haft samband við konuna sjálfa og sent henni blóm. Þau eru einnig sögð fylgjast náið með líðan hennar og eru í sambandi við fjölskyldu hennar. 

Konan heitir Irena og er 83 ára. Líðan konunnar er alvarleg en stöðug, samkvæmt upplýsingum frá sjúkrahúsinu. 

mbl.is