70 handteknir fyrir utan höfuðstöðvar NYT

Mótmælendur söfnuðust saman fyrir utan höfuðsstöðvar The New York Times.
Mótmælendur söfnuðust saman fyrir utan höfuðsstöðvar The New York Times. AFP

Sjötíu manns voru handteknir í New York á fjöldamótmælum gegn ritstjórnarstefnu fjölmiðilsins The New York Times í dag. Mótmælendur kröfðust þess að fjölmiðillinn byrji að falla um hamfarahlýnun jarðar af þeim alvarleika sem hún kallar á.

The Guardian greinir frá.

Aktivistahópurinn Extinction Rebellion stóð fyrir mótmælunum sem voru svo fjölmenn að umferð stöðvaðist á áttunda breiðstræti. Lögregluyfirvöld þurftu að grípa inn í til að leysa hnútinn sem myndaðist.

Mótmælendur klifruðu upp á byggingar með skilti og hrópuðu slagorð. Eitt þeirra var „loftlagsneyðarástand en ekki loftlagsbreytingar.“

Mótmælandinn Donna Nicolio sagði í samtali við The Guardian að hún væri tilbúin til þess að vera handtekin vegna þess að hún vildi að fjölmiðlar fjölluðu um loftlagsneyðarástandið á réttan hátt, það er sem neyðarástand en ekki einungis loftlagshlýnun.

„Skorturinn á umfjöllun um loftlagsvána er fullkomlega óásættanlegur. Þetta er almannahættumálefni á heimsskala,“ sagði Becca Trabin, meðlimur Extinction Rebellion og bætti við:

„Enginn nennir að heyra um loftlagsneyðarástandið á hverjum degi en ef við fjöllum ekki um það daglega þá eru við að setja okkur í útrýmingarhættu.“

Times svaraði fyrir sig

„Það er engin fjölmiðill í landinu sem eyðir meiri tíma, vinnustundum eða kröftum í að fjalla um loftlagsmál en The New York Times,“ sagði Danielle Rhoades Ha, talsmaður fjölmiðilsins í yfirlýsingu.

Árið 2018 hefðu birst 795 fréttir um málefnið auk rannsóknargreina og fréttaskýringa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert