Verða líklega ekki við kröfum mótmælenda

Marc Lanteigne, Lektor við Háskólann í Tromsö, segir ekki líklegt …
Marc Lanteigne, Lektor við Háskólann í Tromsö, segir ekki líklegt að stjórnvöld í Hong Kong verði við kröfum mótmælenda. AFP

„Hingað til er fátt sem bendir til þess að orðið verði við kröfum mótmælenda, sérstaklega eins og sakir standa nú,“ segir Marc Lanteigne, lektor við Háskólann í Tromsö og sérfræðingur á sviði efnahagsmála Kína, er mbl.is spyr um stöðuna í Hong Kong.

Deilt hefur verið um frumvarp ríkisstjórnar Hong Kong sem myndi heimila framsal einstaklinga til kínverskra yfirvalda, en frumvarpinu hefur verið mótmælt ákaft. Mótmælendum tókst í dag að komast inn í þinghúsið.

Kröfur mótmælenda hafa verið að frumvarp um framsal til Kína verði afturkallað að fullu, allir mótmælendur sem hafi verið handteknir verði látnir lausir skilyrðislaust, skilgreining stjórnvalda á mótmælunum 12. júní sem óeirðir verði leiðrétt, óháð rannsókn verði hafin á meintum brotum lögreglunnar og að Carrie Lam ríkisstjóri segi af sér, að því er fram hefur komið. Meðal annars í umfjöllun Hong Kong Free Press.

AFP

Vanmetið reiði almennings

„Þrátt fyrir að ríkisstjórn Lam hafi lagt frumvarpið til hliðar 15. júní neitaði hún að afturkalla það að fullu. Þessari ákvörðun mistókst ekki bara að stöðva mótmælin heldur ýtti undir mótmælin fyrsta júlí,“ segir Lanteigne.

Hann telur atburðarrásina sýna að ríkisstjórn Hong Kong hafi vanmetið reiði almennings vegna frumvarpsins og á sama tíma ekki gert sér grein fyrir ótta almennings í Hong Kong um að vegið sé að frelsi þeirra.

„Það sem gerir þessi mótmæli [í dag] öðruvísi en þau sem hafa verið áður er mikil þátttaka almennra borgara. Tími Lam í embætti er líklega að ljúka og nú er spurning hvort hægt sé að hætta við framsalsfrumvarpið án þess að það skaði ímynd og valdi álitshnekki fyrir stjórnvöld í Hong Kong og Kína,“ útskýrir Lanteigne.

Frumvarpið vakti ótta

Spurður hvort Kína sé líklegt til þess að viðhalda „eitt Kína, tvö kerfi“-stefnunni sem felur í sér viðurkenningu á aðskildu stjórnkerfi í Hong Kong, svarar lektorinn ekki afdráttarlaust.

„Á blaði er Kína enn hliðhollt eitt Kína, tvö kerfi-stefnunni, sem samkvæmt samkomulagi á að gilda til 2047. En framsalsfrumvarpið hefur vakið ótta meðal almennings í Hong Kong um að þetta kerfi sé að hverfa hraðar en gert var ráð fyrir.“

„Það virðist ekki vera nein auðveld leið út úr stöðunni fyrir yfirvöld í Hong Kong nema að hætta við frumvarpið og mögulega finna arftaka fyrir Lam,“ staðhæfir Lanteigne og bætir viða að þrátt fyrir að rúmlega tveir áratugir hafa liðið síðan Hong Kong varð aftur hluti af Kína sé „ennþá breitt bil milli Hong Kong og Kína í pólitískum skilningi.“

Lögreglan beitti táragasi gegn mótmælendum.
Lögreglan beitti táragasi gegn mótmælendum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert