Lífstíðarfangelsi fyrir morð og nauðgun

Bashar skýldi andliti sínu með pappír við dómsuppkvaðningu í dag.
Bashar skýldi andliti sínu með pappír við dómsuppkvaðningu í dag. AFP

Íraskur karlmaður var í morgun dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að nauðga og myrða unglingsstúlku í Þýskalandi. Glæpirnir urðu kveikjan að mótmælum á meðal öfgahægrimanna gegn múslimum og innflytjendum frá Mið-Austurlöndum. 

Þjóðernisflokkurinn AfD og fleiri hægriöfgahópar hafa notað hrottafengið morðið á hinni 14 ára gömlu Susönnu Mariu Feldman í herferð sinni gegn stefnu Angelu Merkel Þýskalandskanslara í innflytjendamálum.

Karlmaðurinn, Ali Bashar, er 22 ára gamall og hafði verið synjað um alþjóðlega vernd í Þýskalandi. Hann var í morgun sakfelldur fyrir morðið á Susönnu í borginni Wiesbaden, hvar glæpurinn var framin. Var honum dæmd hámarksrefsing fyrir glæpi sína, lífstíðarfangelsi. 

Dómarinn í málinu, Jürgen Bonk, taldi einnig að í ljósi vægðarleysis glæpsins yrði Bashar ekki gefinn möguleiki á skilorði að 15 árum liðnum líkt og vaninn er í Þýskalandi. 

Bashar lamdi, nauðgaði og kyrkti Susönnu til bana 23. maí á síðasta ári. Á hann að hafa sent smáskilaboð úr farsíma stúlkunnar með þeim upplýsingum að hún hafi ákveðið skyndilega að fara í ferðalag til Parísar. Lík hennar fannst svo 6. júní í grunnri gröf nálægt lestarteinum þar sem morðið var framið. 

Móðir Susönnu, Diana Feldman, klæddist svörtu öll réttarhöldin sem vörðu …
Móðir Susönnu, Diana Feldman, klæddist svörtu öll réttarhöldin sem vörðu tæpa fjóra mánuði. AFP

Þegar lík Susönnu fannst höfðu Bashar og fjölskylda hans yfirgefið Þýskaland og snúið aftur til Íraks. Bashar var aftur á móti handtekinn af kúrdönskum öryggisveitum og sendur aftur til Þýskalands. 

Bashar viðurkenndi við lögreglu að hafa myrt Susönnu en neitaði að hafa nauðgað henni. Fullyrti hann að þau hafi átt samneyti með hennar samþykki áður en hún hafi hrasað, orðið reið og hótað að hringja á lögregluna. 

Bashar hefur einnig verið ákærður í öðru máli fyrir að nauðga tvívegis 11 ára stúlku sem bjó í sömu flóttamannamiðstöð og hann. 

Bashar kom til Þýskalands ásamt foreldrum sínum og systkinum árið 2015. Hann fékk tíma­bundið dval­ar­leyfi eft­ir að um­sókn hans um hæli var synjað í des­em­ber 2016, eft­ir að hafa áfrýjað niður­stöðunni. Hann hef­ur síðan þá ít­rekað kom­ist í kast við lög­in meðal annars fyrir meint rán og ofbeldi.

mbl.is