Fundu 4 kg af plasti í maga dádýrs

Dádýr í Nara garðinum. Gestum er heimilt að gefa þeim …
Dádýr í Nara garðinum. Gestum er heimilt að gefa þeim sérstakar sykurlausar kökur, en eitthvað er um að fólk sé að gefa dýrunum annars konar mat. Ljósmynd/Wikipedia.org

Níu dádýr hafa drepist í Nara garðinum í Japan á sl. fjórum mánuðum eftir að hafa étið plastpoka. BBC hefur eftir forsvarsmönnum verndarsamtaka dádýranna í Nara að mikið magn plastpoka og matarumbúða hafa fundist í maga níu af þeim 14 dýrum, sem drápust á tímabilinu frá mars til júní á þessu ári.

Rúm 4 kg af rusli fundist í maga eins dýrsins.

Um 1.200 dádýr ganga frjáls um Nara garðinn, sem er vinsæll viðkomustaður hjá ferðmönnum. Dádýrin, sem eru af Sika tegund, eru skilgreind sem þjóðargersemi og njóta lagaverndar í Japan. Flest þeirra hafast við í Nara garðinum og er gestum garðsins heimilt að gefa þeim sérstakar sykurlausar kökur, án plastumbúða.

Svo virðist hins vegar sem einhverjir gestir garðsins hafi gefið dýrunum aðra fæðu.

Rie Maruko, hjá verndarsamtökum dádýranna, sagði í samtali við Kyodo fréttaveituna að ferðamenn hendi líka oft matarumbúðum og plastpokum á svæðinu. Dýrin finna svo lyktina af pokunum, telja um mat að ræða og borða þá.

Samtökin hafa nú deilt á Twitter mynd af miklu magni plastpoka sem fannst í maga eins dýrsins.

Talið er að dýrin kunni að hafa drepist vegna vannæringar eftir að magar þeirra fylltust af plasti.

Yfirvöld á svæðinu hyggjast nú rannsaka dauða dýranna frekar, auk þess sem setja á upp skilti í garðinum þar sem ferðamenn verða varaðir við hættunni sem fylgir því að gefa dýrunum mat sem ekki er búið að gefa leyfi fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert