Nýsjálenska ríkið hefur vopnakaup

Ljósmynd frá blaðamannafundi í síðustu viku þar sem byssukaupaáætlunin var …
Ljósmynd frá blaðamannafundi í síðustu viku þar sem byssukaupaáætlunin var kynnt. AFP

Á annað hundrað Nýsjálendinga afhenti nýsjálenska ríkinu sjálfvirk og hálfsjálfvirk skotvopn sín gegn greiðslu í morgun, þegar fyrsti áfangi byssukaupáætlunar ríkisins í kjölfar árásanna í Christchurch, þar sem 51 lést, hófst.

Alls skiluðu 169 Nýsjálendingar 224 skotvopnum í þessari fyrstu umferð og fengu fyrir það greitt andvirði 37 milljóna íslenskra króna, en til stendur að ríkið standi fyrir yfir 250 viðburðum víða um land þar sem landsmenn geta skilað skotvopnum sínum gegn greiðslu. 

Innan við fjórir mánuðir eru síðan árásarmaður réðst inn í tvær moskur í bænum Christchurch og hóf skotárás á múslíma við bænir. Eins og áður segir lá 51 í valnum eftir árásirnar og brást ríkisstjórn landsins hratt við með nýrri löggjöf sem bannar kaup, eign og notkun óbreyttra borgara á sjálfvirkum og hálfsjálfvirkum skotvopnum.

Samhliða löggjöfinni var áætlun um byssukaup ríkisins kynnt, en jafnvirði 17 milljarða íslenskra króna verður veitt til áætlunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert