Vilja að þjóðaratkvæðið verði virt

AFP

Rúmlega helmingur Breta telur að virða eigi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fram fór í Bretlandi sumarið 2016, þar sem meirihluti kjósenda samþykkti að landið skyldi ganga úr Evrópusambandinu, samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem gerð var af fyrirtækinu ComRes fyrir breska dagblaðið Daily Telegraph.

Fram kemur í frétt dagblaðsins að 54% séu hlynnt því að niðurstaða þjóðaratkvæðisins sé virt. Einungis 25% séu því ósammála og 21% hafi ekki tekið afstöðu til málsins. Af þeim sem kusu með áframhaldandi veru í Evrópusambandinu 2016 vilja 35% nú að Bretland gangi úr sambandinu. Tæpur helmingur, eða 49%, er andvígur því að útgöngunni verði frestað frekar en 29% eru hlynnt því. Þá vilja 43% að Bretar gangi úr Evrópusambandinu án samnings ef sambandið gefi ekki eftir en 32% eru því andvíg.

Hátt í helmingur Breta, eða 44%, vill frekar yfirgefa Evrópusambandið án samnings en að Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, verði næsti forsætisráðherra Bretlands en þriðjungur er á öndverðum meiði. Helmingur aðspurðra sagðist telja það ólýðræðislegt af hálfu þeirra þingmanna sem væru að reyna að koma í veg fyrir að Bretland gengi úr sambandinu í ljósi loforðs þingsins um að framkvæma niðurstöðu þjóðaratkvæðisins. Rúmur fjórðungur, eða 26%, sagðist því ósammála.

Skoðanakönnunin var gerð dagana 6.-8. september og var úrtakið 2.016 manns.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert