Ætlaði að skjóta 400 manns að gamni sínu

Alexis Wilson, 18 ára fyrrverandi nemandi við McAlester framhaldsskólann í …
Alexis Wilson, 18 ára fyrrverandi nemandi við McAlester framhaldsskólann í Oklahoma, sagðist ætla að skjóta 400 manns að gamni sínu og að það væru svo margir í gamla skólanum hennar sem hana langaði að skjóta.

18 ára kona var handtekin í Oklahoma í Bandaríkjunum vegna hryðjuverkaógnar í framhaldsskóla. Fram kemur í skýrslu lögreglustjórans í Pittsburg-sýslu að Alexis Wilson hafi fest kaup á AK-47 hríðskotariffli og tekið myndir og myndskeið af sér með vopnið. 

Þá hafi hún sýnt samstarfsmanni sínum á skyndibitastaðnum Pizza-Inn myndefnið og sagst ætla að „skjóta 400 manns að gamni sínu og það væru svo margir í gamla skólanum hennar sem hana langaði að skjóta.“ 

Ógnin beindist gegn McAlester-framhaldsskólanum í Pittsburg-sýslu sem Wilson var eitt sinn nemandi við.  

Samstarfsmaður Wilson gerði lögreglu viðvart sem gerði húsleit á heimili hennar þar sem riffillinn fannst, auk skotfæra og haglabyssu. Við skýrslutöku hjá lögreglu sagði Wilson að hún hefði ekki meint það sem hún sagði við samstarfsmann sinn heldur vildi hún bara kenna honum að það væri algjör óþarfi að óttast skotvopn. 

Móðirin sá ekkert athugavert við skotvopnin

Móðir Wilson vissi af skotvopnaeign dótturinnar en sagði ekkert athugavert við það þar sem hún stundiaði skotfimi og veiðar. 

Lögreglan hafði einnig samband við skólayfirvöld sem tjáðu lögreglunni að Wilson hefði verið rekin úr skólanum fyrir sex árum fyrir að koma með hníf í skólann og fyrir að skarta hakakrossi á ýmsum varningi sem hún var með meðferðis á skólatíma. 

„Það hryggir mig að við lifum í heimi þar sem hver einasta ógn er trúverðug,“ segir Randy Hughes, forstöðumaður við skólann, sem þakkaði lögreglu jafnframt fyrir skjót viðbrögð. „Með samtakamætti tókst að koma í veg fyrir mögulega lífshættulegar aðstæður.“

Wilson hefur verið ákærð og verður mál hennar tekið fyrir 27. september. 

Frétt CNN

mbl.is