Órangútan með mannréttindi flytur til Flórída

Sandra fæddist í dýragarði í Austur-Þýskalandi fyrir 33 árum síðan …
Sandra fæddist í dýragarði í Austur-Þýskalandi fyrir 33 árum síðan en var seld til Argentínu árið 1995. AFP

Órangútan sem hefur verið íbúi dýragarðs í Argentínu í rúma tvo áratugi undirbýr nú flutning í ný heimkynni sín í Flórída í Bandaríkjunum eftir að dómari úrskurðaði að hann hefði mannréttindi.

Lögmenn Söndru, en það er nafn órangútansins, héldu því fram að henni væri haldið ólöglega í Buenos Aires og unnu málið með tímamótaúrskurði argentínskra dómstóla, en þannig varð Sandra fyrsta argentínska „ómennska manneskjan“ (e. nonhuman person) með rétt til frelsis.

Sandra fæddist í dýragarði í Austur-Þýskalandi fyrir 33 árum  en var seld til Argentínu árið 1995. Þar hefur hún eytt meginþorra ævinnar í búri og forðast gjarnan gesti dýragarðsins. Hún eignaðist dóttur árið 1999 en hún var tekin af henni og seld til Kína.

Elena Liberatori, dómarinn í máli Söndru, er með mynd af órangútaninum á skrifstofu sinni og segir að með úrskurðinum vilji hún senda skilaboð: „Dýr eru skyni gæddar verur og okkur ber að virða þær sem slíkar.“

Sandra er orðin heimsþekkt vegna úrskurðarins og bindur fólk vonir við að hann verði fordæmisgefandi svo að aðrir apar verði álitnir mannverur fremur en eignir.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert