Lýsti drápinu á netinu

Gyðingar krefjast þess að þýsk stjórnvöld grípi til aðgerða gegn öfgasinnum og nýnasistum. Þeir óttast mjög um öryggi sitt og segja aukna hættu á ofbeldi af hálfu nýnasista og rasista í landinu. Tveir létust í árás gyðingahatara í borginni Halle í gær, á heilögum degi Yom Kippur.

Árásarmaðurinn, Stephan Balliet, er 27 ára gamall. Hann streymdi árásinni á netinu, Twitch, og stóð útsendingin yfir í 35 mínútur. Samkvæmt upplýsingum frá netveitunni horfðu 2.200 manns á manninn fremja ódæði gegn saklausum borgurum. Hann birti stefnuyfirlýsingu á netinu fyrir rúmri viku þar sem hann birti meðal annars myndir af vopnunum og skotfærunum sem hann notaði við árásina í gær.

Rita Katz, framkvæmdastjóri SITE, sem fylgist með aðgerðum öfgahópa á netinu, segir á Twitter að vígamaðurinn hafi sett pdf-skjal á netið með upplýsingum og því að ætla að streyma frá morðum á þeim sem ekki teljast til hvíta kynstofnsins, þar á meðal gyðingum. Yfirlýsingin var birt 1. október og þar lýsir hann einnig undirbúningi árásarinnar. 

Í frétt Die Welt kemur fram að skjalið sé 10 blaðsíður og textinn sé á ensku. Þar er sérstaklega tiltekið að hann ætli að gera árás þennan dag á bænahús gyðinga í Halle.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert